Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Ótrúlega krúttlegt

Barn snýr sér að Guði og segir: Mér er sagt að ég verði sendur á jörðina á morgun., hvernig get ég lifað eins lítill og ósjálfbjarga og ég er?
Guð segir: Ég hef valið engil fyrir þig úr hópi engla og hann bíður eftir þér, þessi engill mun sjá um þig.
En segðu mér Guð, segir barnið... hérna á himninum geri ég ekkert annað en að syngja og brosa og það er nóg til að vera hamingjusamur.
Og Guð segir: Engillinn þinn kemur til með að syngja fyrir þig, hann brosir til þín alla daga og þú verður umlukinn ást og þannig verður þú hamingjusamur.

Barnið spyr: En hvernig get ég skilið tungumálið sem mennirnir tala?
Guð svarar: Engillinn þinn segir falleg orð við þig, fallegustu orð sem þú hefur nokkurn tíma heyrt og með mikilli þolinmæði og kærleik mun hann kenna þér að tala.
Barnið spyr: Hvað geri ég ef ég vil tala við þig?
Guð segir: Engillinn þinn mun setja saman hendur þínar og kenna þér að biðja.

Barnið segir: Ég hef heyrt að á jörðinni séu til vondir menn, hvernig get ég varið mig?
Og Guð segir: Engillinn þinn mun verja þig þó það kosti hann lífið.
Barnið segir: En ég verð alltaf sorgmæddur, því ég sé þig ekki oftar.
Guð segir: Engillinn þinn á eftir að segja þér frá mér og vísa þér veginn í áttina til mín, en þó mun ég alltaf vera við hlið þér.

Á þessu andartaki færðist ró yfir himininn, guðdómlegar raddir heyrðust og barnið sagði: Kæri Herra, þar sem ég er að fara, segðu mér... hvað heitir engillinn minn?

Og Guð svaraði: Nafn hans skiptir ekki máli, þú kallar hann bara ,,mömmu"

Að vaða útí...

Því miður eru margir peningalitlir og þurfa að velta hverri einustu krónu mörgum sinnum áður en þeir láta hana fara.  Fyrir þá, eins og fátæku ekkjuna í Mark 12:43 er t.d. erfitt að gefa.  En EKKI EINBLÍNA Á ÞAÐ að hún var fátæk og gaf það sem hún átti. 

Guð þekkir aðstæður hvers og eins og við megum ekki gleyma því að hann hefur vald til breyta aðstæðum okkar.

Hversu oft hefur hann ekki breytt aðstæðum fólks í ritningunni og utan ritningarinnar.  Hann gerði Davíð að konungi og tók konungdóminn af Nebúkadnesar. Drottinn gefur og Drottinn tekur.  Ef hann sýnir okkur svona dæmi í biblíunni, er það öruggt um að hann getur líka breytt aðstæðum hjá öðrum... hann getur breytt okkar aðstæðum.
Við þurfum að treysta honum og treysta á hann.  En það þýðir ekkert að sitja og bíða eftir kraftaverkinu, það gerist ekkert nema við stígum fyrsta skrefið. Það er að segja, við verðum að vaða útí... eins og menn Jósúa gerðu þegar þeir fóru yfir ána Jórdan (Jós 3:11-17).


Máltækið segir Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir.  Einu sinni fannst mér þetta orðatiltæki það vitlausasta sem ég hafði heyrt... hvað þurfti maður sem hjálpaði sér sjálfur, á hjálp Guðs að halda.

En við verðum að vera tilbúin að leggja eitthvað á okkur sjálf og um leið og við vinnum sjálf að lausn mála - blessar Guð framkvæmdina. 


Auðlegð hjartans...

Hvað er raunveruleg auðlegð og hvað gerir mann ríkan. Við lifum ekki án peninga. Það snýst allt um peninga. Frá upphafi hafa menn stundað vöruskipti og selt sína vinnu. Kóngurinn eða keisarinn þarf alsstaðar skattpeninga. 

Allir þurfa að há þessa baráttu að komast af, borga það sem þeim ber og geta keypt það sem þarf.  Gæðum heimsins hafa aldrei verið réttlátlega skipt, alltaf verða einhverjir undir. Það hefur alltaf verið og verður bil á milli ríkra og fátækra á meðan við búum á þessari jörðu. Fólk finnur til með fátækum en á almennt ekki sömu samúð með ríkum. Þó hafa báðir sál. Hver getur dæmt um það hvorum líði betur nema alvitur Guð. 

Við þyrftum kanski að hafa meiri samúð með ríkum, þeir geta aldrei verið vissir um hver er raunverulegur vinur, kanski fylgir þeirra lífi meiri óvissa, meiri óhamingja og skortur á því sem er ekki hægt að kaupa, ást.  Fátækt og auðlegð eru afstæð, eftir því hvort hún er veraldleg eða andleg.  Einhver er fátækur af veraldlegum hlutum en ríkur í hjarta og annar ríkur að veraldlegum hlutum en fátækur í hjarta. En við tengjum fátækt og ríkidæmi oftast við peninga.

Mark 12:41 
Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. -42- Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði.-43- Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna.-44- Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.
Þarna er dæmi um beinharða peninga, aðalatriði sögunnar er upphæðin sem ekkjan gaf, jafngildi eins eyris. Það eru margir hafa áhyggjur af því hvað þeir geta lítið gefið í Guðshús og til Guðs málefnis. Ef til vill reyndi hún að lauma aurunum sínum í baukinn og vonast til að enginn sæi hve hún gæfi lítið. Hún er ekki ein um það... Samt vitum við að það er ekki upphæðin sem skiptir máli.

Samkvæmt þessari sögu metur Guð efni og ástæður hvers og eins. Sumir eru verr staddir og geta gefið minna en aðrir... og það á alveg eins við um tíma eins og peninga. Það á við um allt sem við leggjum til starfsins og kirkjunnar. Mín tilfinning gagnvart þessari sögu, var einhvern veginn sú, að það skipti mestu máli að ekkjan gaf... þó það væri lítil upphæð. Það munar um allt, eins og máltækið segir... margt smátt gerir eitt stórt. 

En ef Guð horfir á hjarta þess sem gefur, þá sér hann að bæði ríkir og fátækir geta verið aurasálir. Ríkur maður getur séð eftir lítilli gjöf og fátækur maður getur gefið stóra gjöf með gleði. Biblían segir að ef við gefum, þá skulum við gefa með gleði og vera trú í hinu smæsta. Guð elskar alla glaða gjafara. 

Auðurinn vill oft safnast á fáar hendur eins og sagt er. 
Biblían varar okkur margsinnis við að láta hin veraldlegu gæði gleypa hjörtu okkar, en lífið og lífsbaráttan er þannig hér á jörðinni að við höfum tilhneygingu til að safna að okkur meiru en við þurfum á að halda. Við kaupum hluti sem okkur bráðvantar í dag en eftir nokkra mánuði liggur hann ónotaður... jafnvel búið að gefa hann í góða hirðinn. Skildi vera slæmt að eiga mikið yfirleitt? Í gegnum alla ritninguna finnum við dæmi um auðlegð manna.

1.Mós 24:35  Drottinn hefir ríkulega blessað húsbónda minn, svo að hann er orðinn auðmaður. Hann hefir gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna. 
1Kon 10:23 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku.

Job 42:12 En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, og hann eignaðist fjórtán þúsund sauða, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur. 
Abraham, Salómon, Job og margir fleiri voru flugríkir, þeir voru Guði þóknanlegir og þess vegna blessaði Guð þá ríkulega. Guð jók eignir þeirra svo þeir voru taldir auðmenn. Það getur því ekki verið Guði á móti skapi að það fari vel um okkur, að við eigum góðan og vandaðan fatnað, skartgripi, skrautmuni, gott hús, bíl (úlfalda nútímans) og svo framvegis, þegar hann blessar sitt fólk með því að auka eignir þeirra. Hættan er og Drottinn minnir okkur sjálfur á það, að við gleymum honum vegna þess að við höfum það svo gott.

Hós 13:6 
En því meira haglendi sem þeir fengu, því saddari átu þeir sig. En er þeir voru saddir orðnir, metnaðist hjarta þeirra. Þess vegna gleymdu þeir mér.  Þegar allt gengur vel, gleymist Guð... og þeir muna ekki eftir honum aftur.. fyrr en þeir þurfa aftur á honum að halda. Oft er þörf en þegar allt gengur í haginn þurfum við stöðugt að þakka fyrir vernd hans og blessun. Hann hefur lofað því að hann muni vel fyrir sjá og hann stendur við sín loforð. 
Ef við gleymum honum, verður hjarta okkar fátækt.
 


2.Kor 9:8  
Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks.  
Hann blessar okkur ríkulega, til þess að við höfum allt það sem við þörfnumst og til þess að við getum gefið öðrum. Guð ætlast ekki til að við sitjum á auðæfum okkar eins og ormar á gulli. Við eigum að gefa öðrum og gjöfin á að vera blessun ekki nauðung. 


Er Guð fyrir alla?

Já Guð er fyrir alla... gyðingar voru útvaldir til að boða trúna um allan heim en þeir brugðust og einangruðu trúna innan síns hóps... sem sitt einkamál og þar með einokuðu þeir Guð. 
Kristur sagði... Jóh 10:9  Ég er dyrnar. sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.

Þarna gæti staðið ,,hver sá sem trúir á mig, mun frelsast"... þarna skiptir engu máli hverrar trúar sá hinn sami var áður.

Þegar Jesús dó á krossinum, breyttist allt, boðun trúarinnar sem áður var í höndum gyðinga varð að lífsstíl fylgjenda Krists... faðmur Krists var negldur fastur, galopinn...
Hann elskar þig SVONA mikið... faðmur hans getur ekki opnast meira og til hans geta allir komið með erfiði og þungar byrðar lífs síns, fyrir hann eigum við eilíft líf. 
Þó kristnir hafi tekið yfir hlutverk gyðinga, þýðir það alls ekki að Guð hafi um leið yfirgefið þá, það þýðir einfaldlega að þeir -eins og við- hafa síðan þá borið persónulega ábyrgð á sinni frelsun.


Guð bjargar mér...

Einu sinni heyrði ég þessa dæmisögu um mann sem treysti alfarið á að Guð sjálfur bjargaði honum. Þegar það kom viðvörun um flóð og það ætti að rýma svæðið, sat hann sem fastast. 
Þegar vinir fóru á sínum einkabílum og buðu honum með, afþakkaði hann með þessum orðum ,,Guð bjargar mér." 
Vatnið var komið að hans húsi þegar rúta renndi upp að honum og honum boðið með... aftur afþakkaði hann með orðunum ,,Guð bjargar mér."
Hann var kominn upp á þakið á húsi sínu sem var umflotið vatni, þegar þyrla kemur til að bjarga honum... og enn afþakkaði hann og sagði ,,GUÐ BJARGAR MÉR." 
Svo fór að maðurinn drukknaði og þegar hann kom til Guðs spurði hann Guð af hverju hann hefði ekki bjargað honum. 
Guð sagði, ég sendi vini þína til þín, ég sendi þér rútu og að lokum þyrlu, en þú afþakkaðir alltaf hjálpina.

Hjálp Guðs kemur ekki síst á neyðarstundu... oft sjáum við ekki að hann hefur byrjað hjálparferlið löngu áður... það köllum við oft ,,tilviljanir" eða okkar eigin ,,heppni."

Gjaldið Guði það sem Guðs er, sagði Jesús. Það á ekki síst við í því formi, að þakka honum það sem vel hefur farið, eða að ekki hafi farið verr í veraldarvafstri okkar þar sem við töldum okkur fullfær að stjórna okkar lífi.
Oftar en ekki er Guð sviftur heiðrinum af velgengni okkar eða björgun.


Auga líkamans

Í Matteusi kemur tvisvar fyrir sama ábendingin, fyrst eftir fjallræðuna í 5.kafla og aftur í 18 kafla eftir að lærisveinar Jesú spurðu hann hver væri mestur í himnaríki. Versin eru ekki nákvæmlega eins orðuð og ekki heldur í sömu röð... þar að auki hefur í seinna skiptið því verið bætt inn að ekki einungis hægri hönd þín eða auga geti tælt þig - heldur hvort þeirra sem er (hægri eða vinstri) og báðir fætur líka.

Matt 5:29  Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.
Matt 5:30  Ef hægri hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en allur líkami þinn fari til helvítis.

Matt 18:8  Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls, þá sníð hann af og kasta frá þér. Betra er þér handarvana eða höltum inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og báða fætur og verða kastað í hinn eilífa eld.
Matt 18:9  Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér eineygðum inn að ganga til lífsins en hafa bæði augu og verða kastað í eldsvítið.

Ef við lesum og skiljum Biblíuna aðeins bókstaflega... þá værum við samsafn af blindum, handa-og fótalausum búkum... sem hefðu þá litlar lífslíkur. Hver tælist ekki af einhverju sem hann sér og hver hefur ekki hlaupið og gripið í tálið. Hver hefði sjón, hendur og fætur ef við tækjum þetta bókstaflega. 

Margir setja þessi orð Jesú í samband við brot á boðorðunum, eins og t.d múslimar sem höggva hendur af þjófum, en Jesús er alls ekki að tala um veraldleg afbrot
Hann er að tala um dýrkun á öðrum guðum... ef auga þitt tælir þig til annarra guða, ef hendur þínar og fætur tæla þig til helgisiða annarra guða... þá væri þér betra að missa getuna til að dýrka aðra guði en að glatast að eilífu. Það skiptir öllu máli á hvern auga þitt einblínir, ef við horfum til Jesú erum við hólpin.

Matt 6:22 Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur.
Matt 6:23 En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið.


Mikilvægt að skilja byrðina eftir...

Í framhaldi færslunnar hér fyrir neðan...
Matt.11:28, Drottinn segir : Komið til mín... ...og ég mun veita yður hvíld.

Alltof oft gerist það, að eftir að við leggjum allt okkar fyrir Drottin... eftir eldheitar bænir... þar sem ákafi, eldmóður og örvænting er látin í ljós... þar sem allur vandamálapokinn er tekinn af herðunum og lagður fyrir Drottin....... að þegar bæninni er lokið, er vandamálapokinn axlaður aftur... þannig að sama byrðin er komin á bakið um leið og bæninni er lokið.

Oft áttum við okkur ekki á því að við sem lögðum málefnið fyrir Drottinn og báðum um lausn... gefum honum síðan ekki tækifæri til að leysa málið... 
Auðvitað er erfitt að bægja áhyggjum í burtu og sumir kalla það ,,kæruleysi" að hafa ekki áhyggjur þegar maður ,,á að hafa áhyggjur"... en leggi maður eitthvað fyrir Guð, er það vanvirðing að gefa honum ekki tækifæri til að koma með lausn.
Og til að Guð fái tækifæri, verðum við að stíga til hliðar... og hætta að grautast í því sem við töldum þurfa æðri meðferð.

Við þurfum að læra að skilja byrðina eftir Grin


Matt 11:28... Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld.

Páll postuli sagði : Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn, beiðni og þakkargjörð.Já, í öllum hlutum..... það þarf ekki að setja málefnin í erfiðleika-gráðu-próf... við getum komið með allt til Drottins. Þegar Páll leit til baka... hafði ýmislegt drifið á daga hans, eins og við getum lesið í  2 Kor. 11.k s.h vers 23–28 
s.hl.23-Meira hef ég unnið, oftar verið í fangelsi, fleiri högg þolað og oft dauðans hættu.
-24- Af Gyðingum hef ég fimm sinnum fengið höggin þrjátíu og níu,
-25- þrisvar verið húðstrýktur, einu sinni verið grýttur, þrisvar beðið skipbrot, verið sólarhring í sjó.
-26- Ég hef verið á sífelldum ferðalögum, komist í hann krappan í ám, lent í háska af völdum ræningja, í háska af völdum samlanda og af völdum heiðingja, í háska í borgum og í óbyggðum, á sjó og meðal falsbræðra.
-27- Ég hef stritað og erfiðað, átt margar svefnlausar nætur, verið hungraður og þyrstur og iðulega fastað, og ég hef verið kaldur og klæðlaus.
-28- Og ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.

Við erum vön að telja síðast upp það sem er þyngst... Áhyggjan... sem er sálræn, er toppurinn hjá Páli.  Páll gat þolað líkamlegu raunirnar en áhyggjurnar voru að sliga hann.

Þetta er nákvæmlega eins hjá okkur, hið sálræna er erfiðast... Þegar við lítum til baka, hefur ýmislegt gerst á lífsleiðinni...


Margir geta sagt það sama og Páll... hafa fengið höggin... verið húðstrýktir... grýttir... beðið skipbrot... komist í hann krappann... stritað og erfiðað... átt svefnlausar nætur... verið hungraðir og þyrstir... kaldir og klæðlausir... ANDLEGA

Andlegi þátturinn er erfiðastur, innri líðan, að hafa frið í sálinni. Þess vegna segir Drottinn: Matt 11:28
Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld... Og Páll postuli sagði : Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn, beiðni og þakkargjörð.

Job 42:5 Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!

Nú er ástandið þannig í þjóðfélaginu að hver ásakar hver annan og margir þurfa á styrk að halda. Allir vita eftirá hvað þurfti að gera, allir hafa réttu svörin og sjá núna hvaða viðbrögð hefðu verið rétt ... Eftirá er auðvelt að hafa réttu svörin - en var hlustað á þá sem sögðu eitthvað fyrir hrunið. Nei... þá hentaði ekki að hlusta, þá vildu allir græða.

Job var einn þeirra sem var vellauðugur í Gt og missti allt sitt... ekki aðeins búfénaðinn heldur öll börnin sín líka... Fyrir áfallið var Job vanur að vera hinum megin við borðið... hann var vanur að stappa stálinu í þá sem urðu fyrir ógæfu... nú þegar ógæfan hitti hann, þá lympaðist hann niður. Hann hefur kanski hugsað, hvernig getur þetta komið fyrir mig sem Guð hefur blessað ríkulega hingað til... Hann átti þetta ekki skilið, hann sem var réttlátur, ráðvandur og grandvar. Auðvitað var hann það allt fyrir sjálfan sig, öll verk framkvæmdi hann rétt, en kanski gleymdi hann því mikilvægasta... að rækta sambandið við Guð.

Við vitum að það er miklu auðveldara að reyna að vera sá sem styrkir, en að vera sá sem þolir.  Nú hafa margir þolað missi eigna og fjármuna, en vonin að nú haldi allt upp á við, heldur fólki á floti.
Missir Jobs færði hann aftur til Guðs, honum varð það ljóst að hann sem taldi sig þekkja Guð áður, kynntist honum raunverulega ekki fyrr en hann þoldi mótlætið. Mótlætið, sem vissulega var honum erfitt og reyndi á hann, gaf honum nýja sýn á samband sitt við Guð.

Job 42:5   Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!


Persónuleg ábyrgð...

Við höldum í vonina að ástandið muni ekki versna meira og vari ekki lengi... Er það bara óskhyggja og hvað er ,,lengi" í alheimstímanum? Í gegnum söguna hafa ríki risið, orðið að heimsveldum og fallið... Ríki Davíðs reis, klofnaði síðan og hvort ríki um sig féll fyrir grannríkjum, þá risu upp spámenn til að stappa stálinu í fólk og leiða það á rétta braut.

Esekíel færði hinum rislágu útlögum fyrirheit um að betri dagar væru í vændum því Guð myndi leiða Ísraelsmenn heim og sameina Júda og Ísraels í eina þjóð. Guð myndi safna  Ísraelsmönnum saman úr öllum áttum (Es 37.15-22) og að hann myndi grundvalla alheimsríki sitt í gegnum afkomanda Davíðs (24v). Esekíel einn spámannanna talaði um mannssoninn í spámannstextum sínum. 
Þetta er sá texti sem gyðingar nútímans tengja við Ísraelsríki dagsins í dag. 


Gyðingar höfðu sterka hóptilfinningu og hneigðust til að strika yfir persónulegar syndir. Stærsta framlag Esekíels til þeirra, var skilgreining hans á persónulegri ábyrgð einstaklingsins, að hver einstaklingur innan Ísrael verði að standa reikningsskil gerða sinna (18.kafli) skilaboð sem gilda enn í dag. Má segja að þar hafi verið byggð brú yfir í Nýja testamentið... þar sem hver og einn ber ábyrgð á sinni sáluhjálp... og gerðum.

En þarf bara trú til þess að hver beri ábyrgð á sér... er það ekki í sambandi við alla hluti? Sá sem skuldar, þarf að borga skuld sína, sá sem brýtur lög, sætir dómi og svo framv. 
Nú eru skuldadagar því við höfum öll tekið þátt í eyðslunni. 

Allir tapa einhverju... ekki tapa trúnni og vitinu - það kemur betri tíð. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband