Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Þýðingarvandamál, gömul saga og ný

Þýðingar hafa alltaf verið vandamál, raunar sagði einhver spekingur að nákvæm þýðing væri ekki til, einungis væri hægt að túlka texta og reyna þannig að koma merkingunni til skila.

Nýja Biblíuþýðingin olli heldur en ekki fjaðrafoki, þar sem ýmsir fóru stórum orðum um að með þýðingunni væri verið að breyta frumtextanum... ég hélt nú fyrst að mér hefði misheyrst... frumtextinn er alltaf eins, það er hebreskan í GT og grískan í NT. Þýðing er aldrei frumtexti.

Apókrýfu bækurnar komu inn aftur eftir nokkur hundruð ára fjarveru. Ein þeirra er Síraksbók.
Hún var rituð á hebresku 180 f. Krist en var 50 árum síðar þýdd yfir á grísku.  Hún hefur nokkra sérstöðu því þýðandi hennar, sem er barnabarn skrifarans setur formála fyrir framan textann, en þar segir:

Jesús, afi minn hafði lengi sökkt sér niður í rannsókn lögmálsins, spámannanna og annarra rita feðra okkar. Var hann orðinn þeim einkar handgenginn.  Það varð honum köllun að leggja sjálfur sitt að mörkum til menntunar og spekiritunar. Það gerði hann til þess að þeir sem lærdómi unna og kynntu sér rit hans gætu tekið framförum með því að breyta eftir lögmálinu.
Ég bið ykkur nú að lesa bókina af velvilja og eftirtekt og taka ekki hart á því þó misbrestur kunni að virðast á þýðingunni á stöku stað en allan lagði ég mig fram við verkið. 
En það sem upphaflega var samið á hebresku fær að einhverju leyti aðra merkingu þegar því er snúið á aðra tungu.
Það á ekki aðeins við um þessa bók. Sjálft lögmálið, spámennirnir og hinar bækurnar víkja um merkingu þónokkuð frá því sem er á frummálinu.

Svo þýðingar hafa alltaf staðið í mönnum. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um hvernig eigi að þýða upphafsvers Biblíunnar... Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm.
Textinn leyfir málfræðilega að setningin sé tíðarsetning... og myndi útleggjast þannig... Í upphafi þegar Guð skapaði himinn og jörð, var jörðin auð og tóm. Þetta myndi þýða að hnötturinn Jörð og alheimurinn hafi verið til áður en önnur sköpun hófst.  Kletturinn Jörð gæti þess vegna verið billjarða ára gamall... ef það er til eitthvað sem mælir tíma himingeimnum. 

Málið er að hvor þýðingin sem er, rýrir ekki Biblíuna sjálfa og boðskapinn, hún breytir einungis okkar hugsun eða pælingum.  En hvað sem við spáum fram og til baka, þá er Guð alltaf sá hinn sami.


Er Biblían heilög - er Jesús kominn?

Margir nota hugtakið ,,heilög ritning" yfir Biblíuna. Kanski ruglar það fólk.  Biblían sjálf, þ.e. bókin sjálf, er ekkert heilagri en aðrar bækur, það er boðskapurinn sem hún flytur... fagnaðarerindið  sem er heilagur boðskapur. 

Fagnaðarerindið finnum við í Jóh 3:16   Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. 

Vegna trúar okkar er Biblían okkur hjartfólgin og við lítum öðruvísi á hana en aðrar bækur. Í Nýja testamentinu eru 4 guðspjöll... ég ætla ekki að fara út í samstofnakenninguna. Það sem ég vil benda á, er að þó guðspjöllin séu að mestu leiti sammála, þá segja þau ekki eins frá í sumum tilvikum þó greinilegt sé verið að segja frá sama atburði eins og t.d. hér...

Mark 6:8   Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti.
Lúk 9:3   og sagði við þá: Takið ekkert til ferðarinnar, hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla.

Nú segja sumir að Guð hafi passað að Orðið væri skrifað rétt niður. Því er ég sammála þ.e. ég tel að það sem skipti mestur máli sé rétt sagt frá.  Fagnaðarerindið er það sem skiptir máli - það sem er sáluhjálp skiptir máli. Annað er okkur til fræðslu, huggunar, uppörvunar og leiðbeiningar.

Ef 4 menn sjá árekstur, segir enginn eins frá honum, eins er með frásagnirnar í Bibíunni. Í raun og veru verður frásögnin ríkari þegar ritarinn auðgar hana með atriðum sem hann tók eftir en kanski enginn annar. Miðja frásagnarinnar er alltaf fagnaðarerindið. 

Það þýðir ekki að ætla að hengja sig á einhver atriði sem varða ekki einu sinni sáluhjálp okkar, og telja Biblíuna og þá fagnaðarerindið merkingarlaust ef það er hægt að finna mótsögn. 

Kristnir menn bíða endurkomu Jesú, menn eru búnir að bíða í 2000 ár og á hverjum mannsaldri í kirkjusögunni hafa menn séð táknin sem segja að séu síðustu tímar... endalokin. Á hverjum tíma var ástandið svo slæmt að menn töldu það ekki geta versnað.
Postularnir seldu allt sitt og biðu endurkomunnar...  Hverjum mætti Páll á leiðinni til Damaskus?

Post 9:4   Hann [Páll] féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Post 9:5   En hann sagði: Hver ert þú, herra? Þá var svarað: Ég er Jesús, sem þú ofsækir.

Samkvæmt Biblíunni hefur Jesús komið aftur - er það ekki ?  


Frá Bismarck til Sioux Falls

Lögðum af stað um 10 leytið. Keyrðum austur I-94, suður 281, austur 12 og suður I-29. Lúlli var nýtekinn við stýrinu aftur, þegar lögreglan stoppaði okkur. Hún hafði verið úti í kanti og hann sveigði ekki yfir á hina akgreinina þegar hann fór framhjá. Reglur eru reglur... en við sluppum við sekt Happy

Við ákváðum að keyra til Sioux Falls í Suður Dakóta, borið fram ,,Sú folls" ca 400 mílur þangað... við vorum hérna fyrir ca 2 árum og ég vildi fara á sömu áttuna... hún er æði. Mollið hérna á móti og svo var hérna geggjað Country Buffet... en það virðist vera hætt.

Við verðum hér í 3 nætur - kanski lengur Wink


Hið sanna fagnaðarerindi

Í Rómverjabréfinu skrifar Páll postuli að Gyðingar eigi að leggja frá sér lögmálið... því þaðan í frá verði menn réttlættir fyrir trú... aðeins fyrir trú..... en alls ekki verk.
Fagnaðarerindið var og er fagnaðarerindi vegna þess að það er trúin sem frelsar þig en ekki hlýðni við lögmál. Ef við værum dæmd eftir verkum ... myndi enginn fara til Guðs.
Fyrir Gyðinga sem höfðu lifað eftir ströngum reglum lögmálsins og verk skipuðu stóran sess í lífi þeirra ss hreinleikalögin, umskurnin, hvíldardagurinn og hátíðir... fyrir þá var þetta stór biti að kyngja.


Í Galatabréfinu 1.6 segir Páll...  

-6- Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis, -7- sem þó er ekki til; heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist. -8- En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður. -9- Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður. 

Margir taka þessum orðum Páls þannig... að Galatamenn  hafi verið farnir að snúa sér aftur til heiðni, en það er ekki málið... flestir þeirra voru áður gyðingar, eftir að menn taka trú á Krist eru þeir kristnir.

Páll er að ávíta þá fyrir að snúa sér aftur að lögmálinu – verkunum. Páll var að ávíta þá fyrir að treysta ekki orðum Jesú þegar hann segir – fylg þú mér, trú þú á mig og þú munt hólpinn verða.  Páll segir í 6v. að þeir séu að snúa sér til annars konar fagnaðarerindis... og við sjáum á bréfum hans að hann er að setja út á menn sem vildu halda inni ýmsum ákvæðum lögmálsins eins og t.d. umskurninni.

Páll segir að annars konar fagnaðarerindi sé ekki til, einfaldlega vegna þess að um leið og menn blanda verkum við, hættir fagnaðarerindið að vera fagnaðarerindi. Fögnuðurinn liggur í því að þú gefur sjálfan þig, þ.e. sál þína.

Og öfugt við þann frasa sem við þekkjum... að selja sál sína fyrir eitthvað... þá getum við það ekki... við verðum að gefa hana af fúsum og frjálsum vilja.

-11- Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk. -12- Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists. -13- Þér hafið heyrt um háttsemi mína áður fyrri í Gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum. -14- Ég fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingasamari um erfikenningu forfeðra minna.


Í versum 11 - 14 er Páll að segja að hann gyðingurinn, þekki gyðingdóminn og fagnaðarerindið finni menn ekki þar. Gyðingdómurinn var fullur af verkum í formi erfikenninga og menn vildu halda í verkin.  Páll segist ekki hafa látið kenna sér það honum opinberaðist þetta fagnaðarerindi... Hann fann það ekki upp, hann var að uppgötva það sem ritningarnar sögðu fyrir en menn höfðu rangtúlkað.

Hvað sögðu lærisveinarnir þegar þeir gengu með Jesú á veginum til Emmaus... það brann í þeim hjartað því hann lauk upp fyrir þeim ritningunum... Jesús gaf þeim skilning á því sem var alltaf fyrir augunum á þeim í ritningunni.

Hið sanna fagnaðarerindi eru orð Jesú: fylg þú mér... trú þú á mig og þú munt hólpinn verða. 


Enn í Bismarck

Aumingjans ræfillinn min var svo slappur í gær að hann svaf mest allan daginn og neyddist svo líka til að fara semma að sofa því við þurftum að vakna snemma. Stundum tekur því ekki að aðlagast nýju tímabelti... Pinch 
við reyndum það ekki í síðustu ferð.

Ég hljóp 90. maraþonið mitt í morgun (allt um það á hlaupasíðunni) og eftir hlaupið héngum við á staðnum... það var svo gott veður... fórum með síðustu rútunni að bílastæðinu... Sturtan var himnesk  Kissing 
en það er svo heitt að ég sit hér og blogga sveitt... á handklæðinu Wink  
Við tökum því rólega í dag en á morgum keyrum við áleiðis til Nebraska.


Fargo til Bismarck

Frábært, svaf betur í nótt. 
Vöknuðum samt snemma, erum enn á vitlausum tíma...  vorum lögð af stað til Bismarck um 9 leytið og komum þangað um hádegið. Hvílíkur hiti er úti, sólin steikjandi og algert logn. 
Ég tek það rólega og Lúlli er eitthvað slappur Sick

Hver er náungi minn?

Við vorum svefnlaus síðustu nótt vegna óláta en það sem verra er...  heimurinn, sem erum við, er hættur að þora að skipta sér af náunganum. Þetta þýðir alls ekki að okkur sé sama - við erum öll orðin hrædd að grípa inn í. Tvöfalda kærleiksboðorðið fjallar um Guð, náungann og mann sjálfan. 


Það er náunginn sem þarfnast okkar góðu verka og það áréttaði Jesús í sögunni um miskunnsama Samverjann. 

 

Þessa sögu finnum við í 10. kafla Lúkasar, en þar spyr lögvitringur einn Jesú og það er seinni hluti vers -25- Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?  Jesús lætur hann svara spurningunni sjálfur... með tvöfalda kærleiksboðorðinu

-27- Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig

-29- En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: Hver er þá náungi minn?

 

Jesús segir honum söguna um miskunnsama Samverjann sögu sem allir þekkja svo vel. Og hér kemur hin aldagamla túlkun fornkirkjunnar á þessari dæmisögu... þar sem maðurinn sem fór ofan til Jeríkó táknar Adam, Jerúsalem er Paradís, Jeríkó er heimurinn, ræningjarnir eru illu öflin í heiminum, presturinn er lögmálið, levítinn táknar spámennina, Samverjinn táknar Krist, sárin tákna óhlýðnina, eykurinn er líkami Drottins og gistihúsið er kirkjan, sem tekur við öllum sem þess óska.  Denararnir tveir tákna Föður og Son og gestgjafinn er leiðtogi kirkjunnar.

 

Með breyttum táknum verður sagan svona ... frá 30 versi

-30- Adam nokkur fór frá Paradís út í heiminn og féll í hendur illra afla. Illu öflin flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. (táknar að óhlýðni hans sjálfs fór svo illa með hann að hans beið dauðinn einn) -31- Svo vildi til, að lögmál gyðinga fór ofan sama veg og sá Adam, en sveigði fram hjá.  ( vegna þess að hann var ekki einn af þeim, fékk hann ekki hjálp) -32- Eins kom og leviti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.( eins með hann) -33- En Kristur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, -34- gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann tók hann á bak sitt, og bar hann til kirkjunnar og lét sér annt um hann. -35- Daginn eftir tók Kristur upp tvo denara, fékk leiðtoga kirkjunnar og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.

 

Ég átti í svolitlum vandræðum með að túlka denarana sem faðirinn og soninn, vegna þess að sonurinn, Kristur var að greiða gjaldið, leiðtoga kirkjunnar fyrir umönnun Adams hins fallna mann.  Vissulega greiddi Kristur lausnargjaldið fyrir okkur á krossinum en mér fannst eitthvað vanta.  En þá áttaði ég mig á því að þessi útlistun er svo æfagömul að þeir voru ekki búnir að uppgötva heilagan anda sem hluta af guðdóminum.  Þrenningarkenningin kom löngu seinna. En ef denararnir tveir tákna föðurinn og heilagan anda, breytist það og hin heilaga þrenning vinnur saman að því að koma Adam aftur á réttan kjöl. 

Sagan endar á loforði Krists......  að hann komi aftur.

 

Lögvitringurinn spurði : Hver er þá náungi minn ? 

Svarið = Allir... náungi minn er hinn fallni maður... en í dag er æ erfiðara að sjá... hver í raun og veru liggur við veginn og þarfnast hjálpar.  Náungi minn getur verið eins og klipptur úr tískublaði, hann getur keyrt um á Benz og talað í dýrasta myndavéla-gemsann ... en hann er öreigi, hjartað er tómt, það vantar merkimiðann - hverjum hann fylgir. 

Framhliðin blekkir... við erum vön að telja náungann vera þann sem sýnir neyðina utan á sjálfum sér... en svo kemur í ljós að hann er sá sem við héldum að hefði það svo gott.  Einn daginn getum við séð andlátstilkynningu og lesið milli línanna... að hann þoldi ekki álagið... þessi brosandi framhlið blekkti, undir var vonleysi, brotið og tómt hjarta.

 

Seinni tíma túlkanir á miskunnsama Samverjanum, fara inn á náungakærleikann, að við eigum einfaldlega að hjálpa þeim sem er í nauðum staddur eins og sá væri Kristur sjálfur.  Far þú og gjör slíkt hið sama... sagði Jesús við lögvitringinn. Adam eða Kristur kynntu sig ekki fyrir hvor öðrum... í sögunni... Hver við erum, skiptir ekki máli en það skiptir máli hvort ég get rétt hjálparhönd... en eins og ég sagði... þá er erfitt að sjá hver í neyð, því fyrir flesta er mjög erfitt, jafnvel erfiðast af öllu, að játa að þeir ráði ekki við ástandið. 

Dæmisögur Jesú hafa ótal andlit, þær eru algerlega tímalausar, fá okkur til að hugsa vegna þess að þær tala alltaf inn í aðstæður okkar.


Minneapolis til Fargo

Við flugum í gær til Minneapolis í Minnisota. Oftast þegar við höfum flogið hingað höfum við keyrt út fyrir borgina áður en við höfum tekið hótel... núna gistum við inni í borginni og keyrðum síðan af stað kl. 7 í morgun til Fargo í N-Dakota.

Við lögðum af stað nær ósofin, fólkið í herberginu fyrir ofan okkur var í kasti, gargaði á hvort annað og slóst og barnið sem þau voru með grenjaði og öskraði.  Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa horft á allar þessar bíómyndir - þá þorðum við ekki að kvarta fyrr en um morguninn. En það kemur ekki fyrir aftur, maðurinn í afgreiðslunni sagði að þau hefðu öryggisverði sem myndu sjá um málið.

Við fengum símhringingu á leiðinni til Fargo, sjötta barnabarnið mitt á leiðinni (fjórtánda hjá Lúlla). Engin smá gleði á ferð. Grin


Auga fyrir auga...

Í gamla testamentinu stendur auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Merkingin er að gjalda í sömu mynt.
Það koma þeir dagar hjá öllum þar sem þeir vildu hafa sýnt meiri þolinmæði og átt meiri kærleik í umgengni sinni við annað fólk. 
Erfiður dagur nægir út af fyrir sig, fyrir viðkomandi einstakling sem eftir á er vafalaust þakklátur þeim sem umbáru leiðindin í hljóði, þó ekki bættist við að fá leiðindin endurgoldin. 

En hvað með það að við eigum að gjalda í sömu mynt... auga fyrir auga? 
Við þekkjum þennan frasa... að maður eigi að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig... En þennan frasa er nefnilega líka hægt að skilja þannig að ef einhver er með leiðindi og skjæting þá eigi umsvifalaust að svara í sömu mynt... það sé kurteisi... Hvers vegna? jú, sá sem var með leiðindin hljóti að vilja þannig framkomu.

Vandinn er bara sá, að ef við missum okkur við fólk sem á greinilega erfiðan dag,  þá erum við ekki að fara eftir okkar vilja, að koma fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur heldur værum við einungis að auka á leiðindi annarra.


Bloggvinalistar

Ég hef fengið nokkur tilboð um að vera bloggvinur, TAKK FYRIR ÞAÐ... en ég hef alltaf hafnað því, það hefur einhvern veginn ekki heillað mig að safna fólki á einhvern vinalista. Ég hef látið mér nægja að hafa tengingu yfir á hlaupasíðuna mína og á síður dætranna.

Aðeins einn þeirra sem ég hef hafnað, var með netfang á síðunni sinni svo ég gæti útskýrt málið, aðrir hafa enga hugmynd um hvers vegna þeim var hafnað.    
Þetta hefur mér þótt leitt, því ég vil ekki að höfnuninni sé tekið þannig að ég hafi eitthvað á móti viðkomandi... en hver veit nema ég breytist og byrji seinna að safna bloggvinum...  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband