Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Hellisbúar í berjaleit


Í helli við Búrfell Ég, Evran og smámyntirnar hennar fórum í göngu í dag... í sól og sumaryl.  Leiðin lá á Búrfellið, þar sem ég hafði farið í rannsóknarleiðandur þangað í gær. Við komust varla áfram fyrir berjum... eins og í gær. 

Ferðin varð að einni allsherjar ævintýra-hellaferð.
Við skoðuðum 100metra hellinn og fleiri hella á svæðinu á leiðinni að Búrfellinu. Það er greinilegt að við verðum að fara eina ferð enn á svæðið og þá með vasaljós.
Við vorum síðast að skoða hellana saman á þessu svæði fyrir 3 árum þegar ratleikurinn með hellaþemanu var í gangi.

Við gleymdum okkur alveg í þessum hellum, hefðum jafnvel getað lagst út.... en Evran vakti okkur til veruleikans.... því hún þurfti að komast í Bónus fyrir lokun. Joyful

Nóg var af berjunum.... vantaði rjómann....  


Ber-ja-ganga

Berghildur passaði að við villtumst ekkiCool   Veðrið var svo dásamlegt að það var ekki hægt að vera inni... Ég hringdi í ferðatékkann (Berghildi)... hún var ekki að gera neitt af viti frekar en ég... Þá var ekki annað að gera en að fara í gönguferð. Eftir á er ég ekki alveg viss hvort ég eigi að flokka þetta sem berjaferð eða gönguferð.

á toppi Húsfells 12.8.2008Sólin skein og ég vildi fara á Húsfell... hef ekki gengið á það áður.
Þetta átti ekki að verða svo langur gangur en það fór svo að ég náði ekki heim fyrir kvöldmat. 
Við gengum okkur upp að hnjám, það stórsér á Berghildi og oft urðum við að berja okkur áfram.... það var svo mikið af berjum þarna.

Útsýni frá Húsfelli yfir Búrfell 12.8.2008Í stuttu máli þá gengum við á 5 tinda, slógum tvær flugur í einu höggi og tíndum ber en vorum ekki týndar sjálfar. 

Við gengum í nær 5 og hálfan tíma, stoppuðum lítið og gengum þvers og kruss, það má eiginlega segja að við höfum skannað svæðið frá Kaldárseli til Húsfells og Búrfells. 

Ef einhverjum vantar upplýsingar þá talið við okkur  Tounge

Dagurinn var í einu orði sagt frábær... og þjónustufulltrúinn setti lokahnykkinn á, því hann beið með nýsteiktar fiskibollur... hans einka-uppskrift... og svo fengum við okkur bláber með sykri og rjóma á eftir.
Þetta er ekkert annað en fullkominn endir á góðum degi Kissing


Blessuð blíðan


Veðrið var dásamlegt í dag, það hafði verið spáð dropum í dag og þess vegna frestuðum við Leggjabrjóti.... en svo var hið besta veður og við Lovísa hittum Hörpu, Óla og strákana á Hvaleyrarvatni.  

Það hefði mátt vera meira logn og færri ský, en við gerðum gott úr þessu, sólin kíkti aðeins á okkur... Við höfðum með okkur rónastólana okkar, einnota grill, pylsur og alles. Strákarnir veiddu síli með sósusigtum og settu í dollur.... þeim fannst þetta rosa gaman.  Wink


Hrauntungu-Reykja-Stórhöfða ganga

Þetta var svolítið áttavillt í dag  Pinch

Þar sem ,,Gengið" var ekki skráð til göngu í dag, fór ég með Ferðatékkanum (Berghildi) í gönguferð.... eða það má segja að við gengum í dag í hálfgerðum ratleik... sem hét leitin að Hrauntungustígnum.
Þjónustufulltrúinn keyrði okkur áleiðis að Djúpavatni.... að skiltinu þar sem stendur Hrútagjá. Þaðan ætluðum við að ramba á Hrauntungustíginn....

Sem betur fer kom ég ekki með ratleikskort Hafnarfjarðar... því Berghildur var með 2 kort sem voru ekki sammála um leiðina sem við ættum að fara. Það hefði ekki verið á það bætandi að vera með 3ja kortið og ekkert eins.

Eftir að hafa gengið í áttina að Keili....að Hrútagjánni og tekið síðan stefnu á Hafnarfjörð... komum við inn á Reykjaveginn, sem er gul stika með bláum kolli. Næst sáum við Stórhöfða-stiku sem var appelsínugul, merkt STÓRH.19 og ákváðum að elta hana yfir hraunið niður í Hafnarfjörð... Því samkvæmt kortunum hefðum við átt að vera búnar að rekast á Hrauntungustíginn.

Við vorum í vandræðum.... það var svo mikið af berjum á leiðinni.  En eftir nokkurra klukkustunda göngu komum við niður að vegamótum Krísuvíkur- og Bláfjallavegar... og þar skar vegurinn gönguleiðina..... og stikurnar hurfu....

Sem betur fer hringdi þjónustufulltrúinn nákvæmlega þarna.... og við orðnar vissar um að leiðin væri ekki stikuð lengur...  hann bauð okkur að láta þyrluna sækja okkur eða skutlast sjálfur eftir okkur og við þáðum það.... klukkan var orðin sjö.

Þetta var orðið ágætt, þó aldrei fyndum við Hrauntungustíginn gengum við sennilega um 12 km.


Leggjabrjótur

Wink

Þjónustufulltrúi og bankastjóri ,,Gengisins" er búinn að spá góðu gönguveðri bæði á föstudag og laugardag.... því er tilvalið að allir gjaldmiðlarnir láti gengisskrá sig... á Leggjabrjót.

Ganga.is gefur þessar upplýsingar:
Leiðarlýsing:  Gömul leið út Botnsdal til Svartagils, þ.e. frá Hvalfirði til Þingvalla. Leiðin er víða mörkuð vörðubrotum.

Göngutími í klst: 5-6
Lengd í km.: um 15 km
Merkingar: Ómerkt
Vörður: Vörðubrot víða
Upphafsstaður: Brynjudalur

Dollarinn er gjaldgengur báða dagana en hvað með ykkur ? 


Frábær helgi

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008      Grin Grin Grin

Föstudagur 1. ágúst
Veðurspáin fyrir helgina var svo frábær að það var ekki hægt annað en að fara út úr bænum.
Við hjónin höfum bara einu sinni áður verið í burtu yfir verslunarmannahelgi... og það var alveg óvart, því þá við fengum úthlutað bústað í Húsafelli.

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008Nú var stefnan tekin á Snæfellsnes. Nánari staðsetning var tekin á staðnum og enduðum við á tjaldsvæðinu á Arnarstapa. Þar var fullt af fjölskyldufólki.

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008 Helga og Týri voru með Viking fellihýsi, Harpa og Óli, Lovísa og Gunni og við vorum í tjöldum. Þetta var talsverður hópur 8 fullorðnir, 6 börn....  Bryndís Líf, Tinna Sól, Ástþór, Ísak Lúther, Adam Dagur og Gabríel Natan og 2 hundar Venus og Míla... voru með í ferðinni. 

Við tjölduðum og komum okkur fyrir, skoðuðum höfnina, mannlífið og dýralífið og grilluðum.... síðan fengum við okkur göngutúr að steinhrúgunni ,,Bárði Snæfellsás" og pósuðum þar fyrir framan....
Je minn, komst ljósmyndarinn í bjórinn !

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008 Við gengum með sjónum og sáum hvernig hafið hefur étið bergið, gert hella, göt í klettana og klippt út stuðlaberg.

Nærri höfninni var sjoppa, þar sem krakkarnir komust í snertingu við heimalninga, kanínur og hænur.... og voru óþreytandi að hoppa á gleðibumbunni.

Laugardagur 2. ágúst
Við gengum frá Arnarstapa til Hellna og aftur til baka. Þessi gönguleið var hæfilega löng fyrir krakkana.... skemmtileg leið meðfram sjónum. Lúlli komst varla áfram, það voru svo stór ber meðfram göngustígnum. Eins og alltaf, var nestið ómissandi....
,,Gengið" brennir sig ekki á því tvisvar að verða nestislaust.

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008

Í fjörunni við Hellna voru stuðlabergið og hraunmyndanirnar svo flottar að við urðum ,,náttúrulegar fyrirsætur"

Við gengum til baka fengum okkur að borða og keyrðum að Rauðfellsgjá, þar sem annað ævintýri hófst. Slóðinn upp að gjánni er merktur en frá veginum sýnist þetta ekki vera neitt merkilegt.

 Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008    Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008 Þegar inn kom þurftum við að stikla á steinum, klifra upp litla fossa og hálf vaða. Gabríel var yngstur í gjánni, en Míla var hræddust.

Ég fór ekki lengra en að kaðlinum, en Lovísa, Gunni, Bryndís Líf og Óli fóru upp kaðalinn.... en þar fyrir ofan var hár foss... lengra var ekki hægt að fara.
Þarna er Lovísa að fara niður kaðalinn.

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008 Eftir ævintýrið í gjánni fórum við í Sönghelli..... og tókum lagið... auðvitað.

Við vorum ekki með nein ljós, nema á myndavélunum.
Inni í hellinum var stallur sem krökkunum var stillt upp á og teknar myndir.

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008 Um kvöldið, eftir æðislegan dag í miklum ævintýrum, var grillað enda allar hetjurnar orðnar glorhungraðar.

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008 Sunnudagur 3. ágúst
Sumir voru þreyttir, sumir vildu leika sér, aðrir vildu slappa af og Lúlla fannst of langt að ganga meðfram sjónum út í Djúpalón. 
Á meðan allir voru að hugsa málið, ákváðum við Ástþór að vera umfram-hetjur... og ganga á Stapafellið. það gnæfir yfir Arnarstapa.
Og það er ekki spurning, hann verður tekinn í ,,Gengið" sem smámynt af einhverju tagi. 

Fjallið var svo laust að við vissum ekki hvað héldi hrúgunni saman... ég tók eitt skref áfram og rann þrjú aftur á bak... en upp í klettabeltið fórum við.... og þar urðum við að halda okkur fast í kexið og vatnið.... rokið var svo mikið.
Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008Í bakaleiðinni skoðuðum við Sönghelli betur og öll hin götin sem gátu verið leynihellar...

Síðan keyrðum við í Djúpalón og kepptumst við að safna okkur perlum. Steinarnir þar eru víst kallaðir Djúpalónsperlur.

Við grilluðum eftir velheppnaðan dag.  Harpa, Óli strákarnir þeirra, Míla, Lovísa, Gunni og Bryndís Líf fóru heim um kvöldið. Það er vinnudagur hjá Gunna og Óla á morgun.

Mánudagur 4. ágúst
Við sváfum í Viking felli-höllinni hjá Helgu og Týra. Það hafði fækkað verulega á svæðinu í gær, þó aðrir kæmu í staðinn.
Við fengum okkur morgunmat og pökkuðum saman. Það var ákveðið að fara í fjöruna á Görðum.... við ætluðum bara að skoða fjöruna og busla aðeins.... en fórum með stóran hluta af henni heim.... það voru svo flottir steinar þarna. Og það er búið að skamma Tinnu árum saman fyrir að vera alltaf að safna steinum í vasana.

Við grilluðum okkur pylsur í fjörunni og renndum niður í Borgarnes.  Þar var farið í sund...... fötin voru að gróa við okkur... Við skemmtum okkur í rennibrautinni og alles. Í garðinum á móti fengum við okkur kaffi og kex....  ALDREI að klikka á nestinu.
Við fundum ekkert fyrir umferðinni á leiðinni í bæinn og komum heim um kvöldmatarleytið.

 Hreint út sagt frábær ferð...... Kissing

Fjölskylduferð á Snæfellsnes 1-4 ág.2008
 


Hlunnindi - reki

Nú hefur fimmta andarnefjan rekið á land.
Reki hefur alltaf talist til hlunninda fyrir jarðir sem liggja að sjó, amk nýtanlegur reki.  Sé dýrið nýdautt er kjötið af því mikil búbót en úldnuð hvalhræ hafa ekki verið fagnaðarefni, enda eru dýrin engin smá stykki eins og lýsingin á andarnefjunni ber með sér, þó smáhveli sé.

http://nat.is/Hvalir/andarnefja.htm
ANDARNEFJA
(Hyperoodon ampullatus)

Stærð fullvaxinna karldýra í hafinu umhverfis landið er að meðaltali 8,4 m og 7½-8½ tonn og kvendýra 6-7 tonn.  Lífslíkur eru 40-60 ár.  Trýnið er mjótt og ennið hátt og hvelft.  Í því er mjög feitt lýsi, líkt og í búrhvalnum, sem notað var m.a. í hægðatregðulyf og húðkrem.  Tvær 2-4 sm langar tennur eru fremst í neðra skolti.  Sporðurinn er ekki klofinn og liturinn er dökkgrár, en neðra borðið nokkru ljósara.

----------------------------------------------------------------

Við þessa frétt af andarnefjunni minntist ég klausu úr Íslands-og Mannkynsögubók NB1. Frá Upphafi til upplýsingar, (bls.212-213) en þar segir:,,Rekið hvalkjöt getur verið varasamt og vissara að reyna kjötið. Þess vegna er soðinn biti af hvalnum og hann gefinn niðursetningi eða hent fyrir hundinn og athugað hvort honum yrði meint af. Sumum þótti það illt að eiga á hættu að missa hundinn sinn."
Bóndi einn í Þingeyjarsýslu fann rekinn hvalkálf á síðari hluta 18.aldar. Hann var ekki viss hvort hvalurinn væri ætur og sauð fyrst bita fyrir son sinn.... því hann gat ekki hundlaus verið...

Sonurinn var svangur, át hvalinn og varð ekki meint af. 

Já, það er misjafnt hvað er verðmætast í augum manna.


mbl.is Fimmta andarnefjan finnst dauð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarsæla við Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn 30.7.2008
Það er sjaldan sem maður upplifir slíka skaðræðisblíðu og var í dag. Við plöntuðum okkur niður við Hvaleyrarvatn, 3 ættliðir, amma, dætur, 2 barnabörn og 2 hundar og við nutum veðursins.

Hvað við erum heppin að hafa svona útivistarsvæði við bæjardyrnar. Þarna var múgur og margmenni og þegar ég gekk hringinn í kringum vatnið með Mílu, mættum við 8 hundum. Allir nutu þessarar himins blíðu.

Hvaleyrarvatn 30.7.2008Krakkarnir óðu í vatninu, voru með báta og háfa og reyndu að fangi síli og hundarnir notuðu vatnið til að kæla sig.

Helmingurinn af allri ánægjunni er svo að vera með nesti......

Það er ekki spurning hvar við verðum á morgun, heldur klukkan hvað við förum þangað.


Kerið, náttúruauðlind

Nú ætlar einhver ferðafrömuður að semja um skoðunargjald fyrir Kerið í Grímsnesinu. Sjálfsagt verða útlendingarnir dauðfegnir.... ef þeir þurfa að borga fyrir að sjá perluna, hljóta þeir að geta farið í skaðabótamál ef þeir slasa sig á staðnum. Við Íslendingar ættum líka að verða glaðir... eigandinn hlýtur að borga eignarskatt af þessu verðmikla landi og núna bætast við skattar af ,,skoðunargjaldinu." Sannkölluð náttúruauðlind fyrir okkur.
mbl.is Greiða eftir á fyrir komur að Kerinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Esjan í dag

Selvogur-Þorlákshöfn, Esjan        Smile  Smile  Smile

,,Gengið" var óstöðugt í dag..... Fór upp og niður.... amk 3 gjaldmiðlar, því Dollarinn, Líran og ferðatékkinn drifu sig á Esjuna. Veðrið var frábært, við héldum að það yrði meiri vindur.
Við lögðum af stað upp fjallið kl. 12:30.... Við fórum mýrina upp, styttri en brattari leið.... á miðri leið settumst við niður og fengum okkur kaffi og nutum útsýnisins.  Við vorum rétt fyrir neðan Stein.... við skrifuðum í gestabókina við Stein.... Hver les þessar gestabækur ?

Það var rosalega mikið af útlendingum í fjallinu. Við hljótum að hafa verið eitthvað annars hugar rétt fyrir neðan klettabeltið.... því við eltum einhverjar útlenskar stelpur, fórum vitlausa leið.... og urðum nánast að bjarga útlensku stelpunum upp....

Esjan 27.7.2008Eftir á sáum við að leiðin sem allir aðrir fóru var merkt og með keðjum til að halda í .... og við bara í lífshættu, því við nánast skriðum upp og héngum á litlum nibbum... þangað til við skriðum upp að keðjunum.  Vorum 2:20 mín. upp.  Önnur gestabók á toppnum...

Uppi var útsýnið frábært, en smá saman kom þokuslæðingur.... við náðum að taka myndir og komast niður... alltaf elti þokan okkur.  Við fórum lengri leiðina niður og vorum sléttan klst að bílnum.

Ferðin var frábær.... alltaf erum við svo blessaðar með veður... það helli-rigndi á leiðinni heim.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband