Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Ferðalög

Erie Pennsylvanía 7-11.sept 2023

Ég fór ein út, enda skreppiferð í eitt maraþon og mikil keyrsla fram og til baka.. Ég flaug til Baltimore MD og gisti í útjaðri borgarinnar.. Daginn eftir keyrði ég til Erie en það var 6 tíma keyrsla.. Erie stendur við sama vatn og Niagara fossarnir renna úr.. Hinu megin við vatnið sást til Kanada..

9.sept.. Ég sótti gögnin og ég fann að ég var að fyllast af kvefi..
10.sept.. skrifaði ég á facebook: Erie Marathon PA, í dag. Ég vaknaði kl 3:30.. og lagði af stað 2 tímum seinna, það voru 15 mílur á startið. Bílaröðin inn á bílastæðið var ekkert grín, ég var farin að halda að ég næði ekki hlaupinu.. enda um mílu ganga á startið og eftir að taka "síðasta piss".. þ.e. klósettröðina..

Hlaupið var á lítilli eyju í sama vatni og Niagara fossarnir renna úr.. brautin var 2 hringir.. Ég get ekki sagt að hún hafi verið spennandi, hlaupið eftir veginum og stór tré báðum megin hálfa leiðina.. Þegar ég fór seinni hringinn var búið að hreinsa allt í burtu, bæði drykkjarstöðvar og mílumerki.. en þjónustulundin var dásamleg, reglulega var spurt hvort mig vantaði eitthvað.. ískalt kók, vatn eða eitthvað að borða..Í mark komst ég, og fékk síðan far á bílastæðið..
Takk Jesús ❤️❤️❤️
Pennsylvania ✔️
3 fylki eftir í 3ja hring um USA ✔️

Daginn eftir keyrði ég aftur til Baltimore.. 408 mílur eða 670 km.. og flaug heim um kvöldið.. Sannkölluð maraþon hraðferð.

Seattle - Alaska - Seattle - heim, 25-30.júlí 2023

Þessi ferð var HRAÐFERÐ til Alaska.. inn og út úr landinu.. og eftir að ég kom heim hugsaði ég að nú væri ég orðin of gömul fyrir hraðferðir.. Þetta var þriðja ferðin mín til Alaska. Ég hef farið 2x til Anchorage en aldrei til Juneau sem er höfuðborg Alaska.

25.júlí.. keyrði Lúlli mig á völlinn.. ég átti kvöldflug út til Seattle.. 8 tíma flug og 7 tíma munur.. Ég var fljót í gegnum eftirlitið en þurfti að bíða klst eftir hótel-skuttlunni.. 
26.júlí.. átti ég flug um hádegi til Juneau í Alaska, flugið var rúmir 2 tímar og 1 tími í tímamun bættist við.. ég var ekki með bílaleigubíl svo ég samdi við leigubílsstjórann um keyrslu í maraþonið..
27.júlí.. auðvitað vaknaði ég um miðja nótt.. og ekki vandamál að mæta kl 6 am í maraþonið til að fá númerið mitt.. Hlaupið var ræst kl 7.. mér gekk ágætlega.. ég var svo heppin að sjá 2 birni og ná mynd af þeim í húsagarði hinu megin við götuna.. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé birni í náttúrunni..
28.júlí.. Maraþon nr 2.. mér gekk ekki eins vel, tímamunur og þreyta gerðu vart við sig og svo var ég með sár á 2 tám frá deginum áður.. eftir maraþonið, fékk ég far upp á hótel, þar sem ég gat þvegið mér í vaskinum og skipt um föt.. og tekið skuttlu upp á flugvöll..
Þar sem ég var mætt tímanlega.. settist ég niður og tók því rólega.. þegar ég stóð upp klst síðar gat ég varla gengið og þurfti að útskýra fyrir fólkinu í eftirlitinu að ég væri ekki fötluð, ég hafi bara verið að hlaupa.. ég átti kvöldflug til Seattle og tapaði 1 klst, þannig að ég lenti þar um miðnætti.. tók skuttlu á hótelið og datt í rúmið án þess að fara í sturtu.. 
29.júlí.. tékkaði ég mig út og tók skuttluna kl 11 upp á flugvöll.. flugið heim var kl 15:50, næturflug eins og alltaf.
30.júlí.. lent kl 6 am og ég ósofin.. svo ég lagði mig fram að hádegi..

já góðan daginn.. held að þetta hafi verið síðasta hraðferðin mín..

Baltimore - Boston 29.maí - 11.júní 2023

Þetta var hlaupaferð.. og allt snérist í kringum hlaupin.. en takmarkið var að fara 6 maraþon.. já góðan daginn og undirbúningurinn var nær enginn.. ég var komin upp í rúma 5 km skokk.. 

29.maí... Við flugum til Baltimore, sóttum bílinn og gistum nokkuð nálægt..

30.maí... keyrði ég til Delaware þar sem fyrsta hlaupið er.. til að Lúlli þurfi ekki að hanga í bílnum á meðan ég er í hlaupunum, bókaði ég minnst 2 nætur á hverjum stað og ég keyrði frekar lengra í hlaupin.. 

31.maí... Fyrsta maraþonið í ferðinni... í Lums Pond State Park.. vaknaði kl 3am, lagði af stað kl 4am.. 20 mín keyrsla á startið sem var kl 5am.. Leiðin var ágæt og hiti þolanlegur.

1.júní... Næsta maraþon var í Fair Hills Elkton Maryland.. Lúlli fékk að vera lengur á hótelinu og beið síðustu 2 tímana í lobbýinu.. Ég vaknaði kl 3, fór kl 4 og hlauðið ræst kl 5.. Þessi leið var mun erfiðari, meiri brekkur, hiti og nær enginn skuggi.. Þegar ég hafði sótt Lúlli keyrði ég til Pennsylvaníu..

2.júní... Í dag ætlaði ég að fara þriðja maraþonið í Douglasville PA.. en hætti við, það áttu að vera fleiri brekkur og í dag var meiri hiti.. Við tókum það því rólega í dag..

3.júní... Mig langaði að sjá frelsisbjöllu Bandaríkjanna í Philadelphiu.. Liberty Bell. Þangað keyrði ég áður en við héldum áfram ferðinni.. það var múgur og margmenni að skoða gripinn en þetta tók samt ekki langan tíma.. Líklega keyrði ég um 500 km þennan dag því næst gistum við í Rensselaer rétt við Albany..

4.júní... Við skoðuðum okkur um, tókum það rólega, fórum í búðir og dúlluðum okkur.. en ég hafði misreiknað næturnar svo við urðum að kaupa okkur eina gistingu í viðbót..

5.júní... Við færðum okkur á hótel í Albany..

6.júní... Ferðinni var haldið áfram.. ég keyrði til Claremont í New Hamshire.. og nú tók ég 3 nætur til að Lúlli gæti verið á hótelinu.. 

7.júní... keyrði ég á startið á tveim næstu hlaupum.. því ég er alltaf að keyra í niðamyrkri í þessi hlaup og betra að hafa staðsetninguna á hreinu..

8.júní... vaknaði kl 3, lagði af stað kl 4 og hlaup ræst kl 5.. Þetta maraþon var í 30 mín fjarlægt, í næsta fylki, Vermont.. Leiðin var ágæt, engar brekkur, meðfram á.. 

9.júní... sama í dag, vaknaði kl 3, þó það væru 5 mín keyrsla á start, því við þurftum að taka allt dótið, tékka okkur út og Lúlli varð að bíða á startinu á meðan ég var í hlaupinu.. Eftir hlaupið keyrði ég til Wells í Maine.. Í þessu hlaupi var ein brött og erfið brekka sem gerði mér lífið leitt 16 sínnum.. ég var orðin aum ofan á ristum og framan á leggjum..

10.júní... Ég hafði haft hótel í 6 mín fjarlægt.. en fékk afboðun vegna viðgerða, þannig að rétt fyrir brottför fékk ég hótel í 30 mín fjarlægð.. þess vegna var sama rútína, vakna kl 3, fara kl 4 og start kl 5am.. L'ulli kom með, vildi ekki hanga á hótelinu.. Ég píndi mig í gegnum þetta.. var kominn með þvílíkan þrýsting á fæturnar, bólgna ökkla og aum upp að hnjám.. en náði að klára.. Ég komst síðan að því þegar ég kom heim að ég var með sinaskeiðabólgu, það marraði í vöðvunum framan á fótunum, og var ég verri á hægra fæti sama og ég ökklabrotnaði á fyrir tveimur árum.

11.júní... Það var komið að heimferð.. og 2-3ja tíma keyrsla til Boston.. Við Stoppuðum einhversstaðar á leiðinni, fengum okkur að borða og skiluðum bílnum í flugstöðinni.. Þeir voru svo almennilegir hjá Dollar að þeir keyrðu okkur á bílnum upp að brottfararsalnum.. Flugið heim var kl 20:50.. og það tók á þrýstinginn á fótunum.. Vélin lenti um kl 6 um morguninn og sonurinn sótti okkur... Allt er gott þegar allt hefur gengið vel og allir komnir heilir heim..

Við keyrðum um MD, DE, PA,NY, NJ, MA, VT, NH og ME 
Maraþonin voru í DE, MD, VT, NH og ME

Ég keyrði 1.122 mílur eða 1,843 km í þessari ferð.


Washington DC 23-31.mars 2023

23.mars.. Ég fór ein út enda var þetta eingöngu hlaupaferð og mikil keyrsla. Ég lenti í DC, fékk ágætan bíl og átti hótel í innan við klst fjarlægð.. næstu 2 daga voru langar keyrslur suður til Seneca í Suður Carolínu..

26.mars.. Brekkumaraþon í Seneca S-Carolina í dag.. ekki óvön því.. en það hafðist 🏃‍♀️👌🥳Eftir hlaupið keyrði ég 90 mílur eða um 145 km til North Carolina þar sem næsta maraþon er..

27.mars.
Marflatt maraþon í Mills River N-Carolinu.. í dag. Eftir maraþonið var 4 klst keyrsla norður, yfir Virginiu og inn í W-Virginiu.. um 220 mílur eða um 360 km.. það var æðislegt að komast í bað og í rúmið.. Ég á hótel hér í 4 næstur og get tekið 2 maraþon, 2 fylki hér, því fylkismörkin liggja við hlaupaleiðina..

29.mars.. Annað brekkuhlaup, Maraþon Bluefield í W-Virginu.. WV er Mountain MAMA.. söng John Denver.. Þetta var erfitt, fæturnir ekkert nema blöðrur en ég var ákveðin að fara daginn eftir.. svo ákveðin að ég þorði ekki úr sokkunum og svaf í þeim..

30.mars.. Um morguninn fór ég í morgunmat, var sennilega komin með vökvaskort því ég drakk of mikið af safa, vatni og kaffi og fékk heiftarlega í magann.. og hætti við hlaupið.. 

31.mars.. ég hafði lofað Indverja að vera samferða mér til DC.. ég hafði hins vegar ekki gert mér alveg grein fyrir hvað ég þyrfti að fara snemma af stað.. þegar ég lofaði því og tíminn var alltaf að færast fram.. Það endaði með því að ég þurfti að vakna kl 2am og við vorum lögð af stað kl 3 um nóttina.. því hann ætlaði að fá fluginu sínu breytt og þurfti að vera mættur milli 8 og 9 á völlinn..

Maður þarf að hafa athyglina í lagi þegar maður keyrir í 5 tíma (330 mílur) á 120 km hraða í niðamyrkri.. og vegavinna og þrengingar öðru hverju að auki.. svo ég sagði að hann ætti að leggja sig.. Ég skilaði honum af mér á flugvellinum um kl 8am.
Í DC keyrði ég niður að Hvíta húsinu, lagði bílnum síðan nálægt Lincoln minnismerkinu.. enda hafði ég ekki barið það augum áður.. þegar ég var að mynda kirsuberjatrén sem eru í blóma.. sá ég fólk með gæludýrin sín, hund og 2 gopher eða marðardýr??.. Ég þurfti að berjast við þreytuna um eftirmiðdaginn, eftir að hafa keyrt alla nóttina.. Ég reyndi að dingla mér í Walmart, tók blóðþrýstinginn.. hann var fínn. Ég fór síðan í fyrra lagi að skila bílnum, sem var bara ágætt og alltaf blessun að skila honum í heilu lagi.

Ferðin var á enda, 8 dagar... næturflug kl 20:35 til Íslands
3 maraþon.. SC, NC og WV
Ég keyrði 1.396 mílur eða um 2.300 km.



 

 


Budapest 13-27.okt 2022

Við Harpa vorum að fara í seinni tannlæknaferðina.. Fyrri ferðin gekk vel hjá mér, en var auðvitað áfall fyrir Hörpu að lenda í Hjalta og Íslensku Klínikinni.. og ótrúlegt að Hjalti, Íslenska Klínikin segist hafa kært Hörpu fyrir tilraun til fjárkúgunar því hún vill að Klínikin greiði það sem kostaði að laga mistökin eftir þá... Þetta hefur komið fram í Fréttinni, DV og Mannlífi..
Við höfum hins vegar fengið frábæra þjónustu hjá Helvetic Cliniks.. sem er með vottun valin besta tannlæknastofan í Evrópu og 5. besta í heimi.. 
Bara til að upplýsa vinnubrögðin í Budapest, þá fær maður tilboð þar sem hver tönn hefur sérstakt númer og sunduliðaðan kostnað.. og því auðvelt að reikna út hvað kostar að gera við hverja tönn.. 
Við Harpa tókum AirB&B í þessari ferð, litla íbúð við göngugötuna og í uþb km fjarlægð frá stofunni... Við keyptum okkur oft morgunmat á hótelinu þegar við áttum tíma snemma. Við skoðuðum kirkjur, Hospital in the Rock og fl.. Einn dag þegar við áttum ekki tíma skelltum við okkur með lest til Bratislava í Slóvakíu.. Þar skoðuðum við Bratislava kastala, borðuðum, versluðum og tókum lestina til baka.. 
Síðasti tíminn hjá mér var fyrir hádegi sama dag og við fórum heim.. en þann dag var ég búin að vera 1 mán í burtu fyrir utan 1 dag (12.okt) sem ég var heima milli ferða.


Nevada - Utah - Arizona 27.sept til 11.okt 2022

27-30.sept...
Þetta er fyrsta ferðin sem Lúlli fer í eftir Covid. Við, Vala og Hjöddi verðum úti í 2 vikur. Við millilentum í New York á leiðinni til Las Vegas.. Við fengum þennan fína van hjá FOX svo það fór vel um okkur.. Við gistum fyrstu 3 næturnar á Golden Gate Hotel í miðbænum.. Fyrst var að jafna sig eftir flugið, versla vatn og fleira. Við skoðuðum útilistaverk sunnan við Las Vegas.. heimsóttum Lilju en 30 sept keyrum við til Utah.. á leiðinni skoðuðum við Valley of Fire..

30.sept- 2.okt
Við tékkuðum okkur inn á Quality Inn, ég sótti númerið, ath aðstæður og gerði mig klára fyrir maraþonið 1.okt. en þetta varð með erfiðustu maraþonum sem ég hef farið.. en allt um það á byltur.blog.is.. Daginn eftir keyrðum við til Hurricane UT en þar gistum við í 5 nætur

2-7.okt ZION þjóðgarðurinn - Norður Rim Grand Canyon
Það leit ekki vel út með veður fyrsta daginn en við keyrðum í þjóðgarðinn, keyrðum að norður innganginum, og skoðuðum snarbrött fjöllin, fórum í gegnum göng.. veðrið lék við okkur.. Daginn eftir fórum við Vala bara tvær, eldsnemma með nesti og gengum NARROWS en eftir ca 2 km göngu í vatninu, gáfu vaðskór Volu sig, botnarnir losnuðu í sundur.. og hún varð að skipta yfir í strigaskóna... við fórum aðeins lengra en snérum síðan við... tókum rútuna til baka og fórum út til að ganga ANGELS LANDING.. Veðrið var ótrúlega flott.. en engin myndavél mun nokkurntíma ná að fanga þessa dýrð.. Daginn eftir notuðum við til að keyra að norður-rim Grand Canyon, því strákarnir höfðu bara komið á suður-rimina. Við notuðum tækifærið að skoða Angels Window og fleira sem var við Cape Royal en sá vegur var lokaður þegar við Vala vorum þarna í gönguferðinni 2019.. Síðasta daginn í Zíon notuðum við til að fara með strákana í þann hluta garðsins þar sem við gengum.. Daginn eftir keyrðum við til Las Vegas.

7-8.okt N-Las Vegas 
Við tékkuðum okkur inn á hótel, fórum í búðir og út að borða, á morgun keyrum við norður til Beatty, skoðum útilistaverk, gamla námubæi, Alian Center og fleira..

8-9.okt   Beatty
Við gistum í Beatty, fr´bært hótel, lítll og fallegur bær, við borðuðum kvöldmat úti á rómantískum veitingastað, frábæra steik. daginn eftir keyrðum við áfram norður, sáum fleiri námubæi, skoðuðum International Car Forrest, keyrðum suður heimsóttum Alian Bar og Arial 51.. þetta var langur hringur.. þó nokkur keyrsla en við komum aftur til Las Vegas seinnipartinn..

9-11.okt Las Vegas - Hótel Rio
Eftir Covid er manneklan þvílík að það tók 3 klst að tékka okkur inn á Ríó.. Hótelið er flott, það vantar ekki, góð herbergi og allt til fyrirmyndar, en við hefðum ekki haldið þessa innritun út ef við hefðum verið að koma úr flugi.. Við hvíldum okkur, borðuðum úti, versluðum og pökkuðum.. Ferðin velheppnuð en er að verða búin..

11.okt.. Við tékkuðum okkur út snemma, ég skilaði bílnum, við áttum flug um hádegið til New York og næturflug heim um kvöldið... Lentum í Keflavík um kl 9 daginn eftir... 12.okt. 

 


Budapest 30.júní - 9.júlí 2022

Við Harpa fórum í tannlæknaferð til Búdapest, hún var að fara í fjórða sinn... vegna mistaka hjá Íslensku Klínikinni þar og er nú komin á nýja stofu í miðborginni... Við flugum með Wizz air og Harpa var með leikskólatösku fyrir mömmu svo mér myndi ekki leiðast í fluginu... ekkert sjónvarp...
Ferðin heppnaðist í alla staði mjög vel... við áttum oft tíma til skiptis og fórum seint út einhverja daga en við náðum að skoða heilmikið ma 9 kirkjur... við versluðum eitthvað smá og fórum eitt kvöld í óperuna að sjá Grímudansleikinn eftir Verdí. 
Helvetica klinic var með tannlæknastofur á fyrstu hæð og hótel á efri hæðunum... þetta var mjög þægilegt. Við eigum eftir að fara aftur eftir  ca 3 mán.


PA, NJ, CT og MA, 3-10.júní 2022

3.júní
Já ég er á leiðinni út, átti pantað covid test kl 9... og það má segja að það hafi verið forskriftin að ferðinni... að pöntunin fannst ekki, en ég gat skráð mig í annað test. Það tók síðan 20  mín að fá niðurstöðuna og þá brunuðum við upp í flugstöð... Auðvitað lenti ég aftast í röðinni og ég var 1 tíma og 40 mín í röð að tékka mig inn, síðan var það bara sprettur í vélina... Flugið var fínt, gott að ferðast með UNITED AIRLINES, tvisvar matur á leiðinni og góð þjónusta...  Þegar ég mætti á AVIS bílaleiguna... fannst pöntunin ekki... en
 svo fannst hún á leigu úti í bæ??? og ég sem tékkaði í boxið -airport-

Það kostaði 40 usd að komast þangað... þar fékk ég andlegt áfall yfir skúrnum... svo neitaði leigan að viðurkenna tryggingar í korti... og seldi ekki tollpassa... þegar maðurinn, sem var hinn almennilegasti allan tímann, sagðist ætla að láta mig fá ,,sleða" þá bað ég um að fá hreindýr líka... en þetta var hans brandari fyrir snjóhvítan bíl...
Ferlið á leigunni tók óratíma og ég komst ekki af stað fyrr en kl 4 og þá var umferðin orðin þung. Ég keyrði til East Stroudsburg PA, komin eftir 4 tíma... stillti klukkuna á 2 am fyrir maraþonið...
 
4,júní ... Maraþon í Sussex NJ í dag...
Ég lagði af stað kl 3:15 til að hafa tímann fyrir mér að finna staðinn í New Jersey... early start kl 5... þessir garðar geta verið erfiðir í myrkri... en þó ég keyrði um í rúman klukkutíma um garðinn, fann ég ekki fólkið... ég var farin að halda að það væri ekki réttur dagur... kl 5:15 datt mér í hug að keyra upp að einhverju hóteli í næsta bæ og vona að þar væri net án lykilorðs... þá sendi ég skilaboð... ég finn ykkur ekki í Stokes State Forest park!... svar: við erum í High Point... 13 mílur í burtu... Ég keyrði eins og MANIAC og mætti 40 sek fyrir venjulegt start... kl 6... já og eigum við eitthvað að ræða 108 brekkur, já einmitt, þetta var skráð ,,hilly"...
Nýtt start hafði farið framhjá mér... bara heppin að missa ekki af hlaupinu.
 
5.júní
Í dag keyrði ég frá Pennsylvaníu, þvert yfir New Jersey, New York og Massachusetts til West Hartford í Connecticut... Þetta áttu að vera 178 mílur... eða 288 km... og taka 3 og hálfan tíma... en vegna þess að #&=# bílaleigan leigði ekki Easy Pass... gat ég ekki notað tollvegina... og keyrði ég 481 mílu eða 780 km og var rúma 8 tíma á leiðinni. Í denn gat maður borgað í tollhliði, nú er myndavélakerfi tengt við númeraplötu/eiganda bílsins og háar sektir... Þess vegna gat ég ekki keypt passann annarsstaðar... 
 
6.júní ... Maraþon í morgun í Simsbury CT
Ekki halda að allt hafi verið eins og ætlað var... Ég held ég hafi sofið ágætlega/ekki viss... vaknaði kl 2:15 og var lögð af stað um kl 4, en early start er kl 5... það áttu að vera 20 mín á startið en þegar ég setti inn hnitin sagði Garmin 50 mín... svo hugsaði ekki um það meira og rauk af stað... keyrði eins og brjálæðingur í myrkrinu, fór einu sinni framhjá exiti og þurfti að snúa við... 5 mín fyrir 5 kom ég á staðinn... og þar var ENGINN...
Þegar ég athuga blaðið, þá ruglaðist ég á dögum... setti inn hnit fyrir næsta miðvikudag... ég grét í 3 sek... mátti ekki vera að því að gráta lengur... Rétt hnit voru 50 mín í burtu, en mín var 25 mín á leiðinni... ég fékk að fara strax af stað uppá að reikna frá starttíma kl 5...
Brautin var nokkuð slétt, kalt og rakt í upphafi en varð heitt, nokkrir skuggar á leiðinni... er þetta ekki orðið gott???
Þetta hlaup er til heiðurs Indíu Carmen 8 ára í dag... en þegar hún fæddist var ég hálfnuð í maraþoni í Illinois í Heartland Seríunni...amma er aldrei heima.
 
7.júní
Ég skipti um hótel... keyrði til Holyoke MA fyrir síðasta maraþonið í ferðinni...
 
8.júní ... Maraþon í Holyoke MA
Þó startið væri ekki langt í burtu og að ég væri búin að fara þangað ,,óvart" á mánudag... þá vaknaði ég kl 2:15... og var komin snemma á startið í grenjandi rigningu... veðurfræðingurinn heima sagði að það myndi stytta upp eftir nokkra tíma og vera glampandi sól eftir það... og hann var með þetta... Maraþonið var ræst kl 5, grenjandi rigning malarstígur og 7 brekkur x12 ferðir...
Ég kom sjálfri mér á óvart... var með ferskari fætur en ég hélt...
 
9.júní ... Heimferð
Ég lagði klst fyrr af stað en ég ætlaði eða(8:40)... 160 mílur í Linden NJ að skila bílnum... ég stoppaði í New Haven og tók atvinnuviðtal í Walmart... á TEAM... við sóknarnefndina á Borg á Mýrum... og hélt síðan áfram... það hægðist verulega á umferðinni í New York, þetta var skref fyrir skef... mér var ekki orðið sama og þegar ég kom að göngum yfir til New Jersey voru þau lokuð vegna slyss og garmin sendi mig í hring í þessari hægu umferð... þá talaði ég við lögregluna sem skrifaði niður leið að brúnni... vá, ég bað stanslaust til Guðs... að ég missti ekki af fluginu...
Það greiddist úr umferðinni þegar ég kom yfir brúna... aðeins 11 mílur eftir... og... bílaleigan lokuð... já, einmitt, ég hreinsaði út úr bílnum, tók myndir allan hringinn, læsti og setti lyklana í lúgu... labbaði í næsta hús og þar næsta og bað fólkið að hringja á leigubíl... loksins hitti ég mann sem var svo elskulegur að hringja og ég fékk bíl eftir 3ja símtal... og rúmlega kl 8 var ég komin á völlinn... flug kl 11:40... og auðvitað seinkaði fluginu - hvað annað !
Í þessari ferð kláraði ég þrjú fylki, 3 maraþon
Sussex New Jersey, 43,49 km ✔️
Simsbury Connecticut, 44 km ✔️
Holyoke Massachusetts, 44,69 km ✔️
Ég keyrði 960 mílur eða 1.555 km         TAKK JESÚS ❤🙏❤



Missouri - Oklahoma 11-17.maí 2022

Ég fór ein út, enda hlaupaferð, millilenti í New Jersey og flaug þaðan til Kansas City... Þetta var langur dagur því biðin á vellinum í NJ var rúmir 8 tímar... lenti um miðnætti í Kansas, og búið að loka á bílaleigunni... þegar ég var komin á hótelið hafði ég vakað í 23 tíma... 

Skuttlan fór með mig aftur upp á flugvöll, ég náði í bílinn og keyrði út úr Missouri, yfir horn af Kansas og suður til Miami Oklahoma... 180 mílur eða 290 km... nú bættist við klst munur við Ísland. Ég þurfti að tékka mig út um nóttina fyrir maraþonið... garðurinn sem brautin var í hafði verið á kafi fyrir viku, því áin flæddi rækilega yfir bakkana... það var heitt en skýjað og við fengum einn rigningarskúr... 

Strax eftir hlaupið keyrði ég norður til St Joseph í næsta maraþon... og á leiðinni var keyrt aftan á mig... það stoppuðu bílar fyrir framan mig, ég gat stoppað en bíllin fyrir aftan mig lenti á mér... þetta ferli tók þó nokkurn tíma, lögreglan kom ekki því enginn slasaðist og bílar ökufærir... Ég fékk eins miklar upplýsingar hjá bílstjóranum og mér datt í hug að ég þyrfti... enda er þetta ekki í fyrsta sinn sem keyrt er aftan á mig í USA... hafði samt smá áhyggjur að hafa ekki fengið nægar upplýsingar því lögreglan kom ekki...

Ég var því ekki vel sofin þegar ég mætti um miðja nótt í næsta maraþon... það var greinilega ekki minn dagur... og ekki sniðugt að fara maraþon tvo daga í röð án æfinga... það var heitt 93°F, rakt og nánast enginn skuggi... en ég þráaðist við að klára. 

Flaug heim frá Kansas City með millilendingu í Newark NJ.

2 maraþon og keyrði 692 mílur eða 1.120 km


Chicago IL - Kentucky 20-27.apríl 2022

Covid vottorðið mitt gildir í 3 mán svo það er um að gera að nota það... Ég fór ein út, flaug til Chicago og keyrði daginn eftir suður til Cairo... það voru 385 mílur þangað eða 624 km... ég stoppaði nokkrum sínnum á leiðinni til að slétta krumpurnar... 

Ég fékk ágætis hótel... en þarf að fara í nótt yfir fylkismörkin og 30 mílur suður til Columbus Kentucky í maraþonið... Það var mjög heitt, 5 brekkur og 14 ferðir... 70 brekkur, vá og svo mældist brautin allt of löng... ég var fegin að hafa dag á milli maraþona núna...

Næsta dag keyrði ég til Vienna IL... uppgötvaði fyrir framan hótelið að ég hafði gleymt símanum á hinu hótelinu... já takk, 44 mílur til baka, 88 alls... svo ég keyrði 132 mílur þennan dag... þegar ég svo fékk símann í hendur vissu allir í hlaupinu og hálft Ísland að ég hafði gleymt símanum... NEWS TRAVEL FAST..

Það var ca 1 míla á startið í Vienna, svo það var mjög þægilegt... brautin var slétt og allt gekk vel... daginn eftir keyrði ég aftur til Chicago og gisti í Monee þar til ég flaug heim...

2 maraþon og keyrði 1.052 mílur eða rúma 1.700 km

YESS, I LOVE IT


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband