Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál

Bara gott að Jenis standi á sinni sannfæringu

Hverjum manni leyfist að hafa sína skoðun og fólk á að vita hvar stjórnmálaleiðtogar standa. Auðvitað er afstaða hans blásin út eins og hann hafi framið glæp með sinni afstöðu til samkynhneigðar en þetta er háttur blaðamennskunnar.

Biblían tekur skíra afstöðu til samkynhneigðar karlmanna.
Þetta kemur fram í lögmáli Gt, 3.Mós 18:22... Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð... og í Nt 1.Kor. 5 og 6 er talað um saurlífismenn og kynvillinga og menn eru hvattir til að sitja ekki til borðs með þeim (1.Kor 5:11).

Biblían er mjög karllæg og gerir ekki ráð fyrir að tvær konur hafi áhuga á að ,,liggja saman" eins og það er orðað, þó maður geri ráð fyrir að afstaðan sé sú sama og gagnvart karlmönnum.


mbl.is Danir blása Jenis-málið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jesaja 40:8

Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs varir að eilífu.

Ég veit ekki hvað ég hef oft lesið eða hlustað á þetta vers og alltaf hefur merkingin ,,orð Guðs varir að eilífu" verið tengd fyrirmælum eða skilaboðum Guðs til okkar í gegnum Biblíuna.

Orðið ,,orð" er eins í eintölu og fleirtölu en sem fyrirmæli eða skilaboð verður versið að vera í fleirtölu - því ekki er eitthvað eitt orð, fyrirmæli eða skilaboð. Í frummálinu er ,,orð Guðs" í eintölu annars myndi versið vera ,,orð Guðs VARA að eilífu" ef orðið ,,orð" væri í fleirtölu. Að auki er ,,orð" þarna með ákv. greini og ætti að vera þýtt ,,orðið"

Jóh.1:1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. (2) Hann var í upphafi hjá Guði.

Orðið er Jesús og hann var upphaflega hjá Guði. Þess vegna fannst mér forvitnilegt að kanna notkun orðsins ,,orð" (í et m/ákv.gr.) í Gamla testamentinu.
Það birtist fyrst í 1.Mós 15:1... Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn:,, Óttast þú ekki, Abram, ég er skjöldur þinn, laun þín munu mjög mikil verða"
Orð Drottins kom aftur í sýn í 4 versi...

Hvernig getur ,,orð" komið í sýn... og hvers vegna talar Abram við ,,orð" í sýn... nema ,,orðið" sé Guð. Enda segir í 5.versi að ,,hann" sem getur ekki verið annar en ,,orðið" í sýninni, leiddi Abram út og sagði honum að telja stjörnurnar - svo margir yrðu niðjar hans.

Orð Guðs varir að eilífu - Drottinn er eilífur


Heyra ekki og skilja ekki...

Jesús sagði í Jóh 15:1-8
-1- Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn.
-2- Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt.
-3- Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar.
-4- Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér.
-5- Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.
-6- Hverjum sem er ekki í mér, verður varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt.
-7- Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það.
-8- Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.

Páll sagði í Róm 10:16-19 Hefur Ísrael hvorki heyrt eða skilið fagnaðarerindið um Krist???
Og margir í dag skilja ekki heldur að þeir gyðingar sem búa í Ísraelsríki nútímans eru ekki lengur útvalin þjóð Guðs... Þeir sem afneita Kristi eiga ekki að vera upphafnir af kristnum.

Kristur gerði allt sem hann gat til að boða gyðingum fagnaðarerindið, hann sendi lærisveinana út tvo og tvo (Lúk 10:1) en skilaboð hans til þeirra voru... að væru þeir ekki velkomnir, þá skyldu þeir þurrka dustið af fótum sér og fara, en þrákálfarnir sem vildu ekki taka á móti fagnaðarboðskapnum skyldu samt fá að vita að Guðs ríki væri í nánd.


Sá sem ákallar nafn Drottins mun hólpinn verða

Ég kom frekar vonsvikin heim í kvöld. Hafði verið á fundi... þar sem ég held að margir fundarmanna séu á rangri leið. Þegar ég kom heim leitaði ég í Biblíuna... dró korn... þau festust nokkur saman og ég raðaði þeim í þá röð sem ég losaði þau sundur og byrjaði að fletta.

Sálm 86:11-12
Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.  Ég vil þakka þér, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og tigna nafn þitt að eilífu,

Jóel 3:5
Og hver sem ákallar nafn Drottins, verður hólpinn. Því að á Síonfjalli og í Jerúsalem munu nokkrir lifa af eins og Drottinn hefir heitið. Hver sem ákallar nafn Drottins mun frelsast.
Önnur hugsanleg þýðing á síðustu setn.: Meðal þeirra sem frelsast eru þeir sem Drottinn kallar.

Lúk 22:29-30
Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér,
að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.

Sálm 130:7-8
Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn og hjá honum er gnægð lausnar.
Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Hver sá sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða... nafnið JESÚS gefur okkur frelsi. Jóel segir að NOKKRIR munu lifa af á Síonfjalli og í Jerúsalem... það eru þeir sem ákalla nafn Drottins Jesú Krists... en þjóð Guðs, Ísrael sem beið Drottins, þekkti hann ekki...
Þeir sem kannast ekki við mig á jörðu mun ég ekki kannast við á himnum sagði Jesús... við erum ávöxtur trúarinnar. Jesús er rótin sem við fáum næringuna frá.
Jóh 15:1   Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn.
Jóh 15:5   Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar.

Þeir sem höfnuðu Jesú voru sniðnir af vínviðnum og Ísrael varð svo fámennur að Páll kallar hann leifar í Róm 9:27 og Róm 11:5. Aðeins leifar frelsuðust - hinir urðu forhertir og Guð gaf þeim sljóan anda... ALLT TIL ÞESSA DAGS... En Guð gengur ekki á bak orða sinna þó meirihluti lýðs hans hafi hafnað syninum. Guð er trúr þeim sem tóku við Jesú og hann græddi heiðingjana á vínvið sinn í stað þeirra sem voru sniðnir af.
Lýður Guðs ber enn nafnið Ísrael.
Hvers vegna?  Lýður Guðs skipti hvorki um nafn eða kennitölu... hann skipti um fólk og skipar nú eingöngu þá sem ákalla nafnið Jesús... Hjá honum munu þeir sem trúa á Krist fá miskunn og verða leyst frá misgjörðum sínum. AMEN


Ríki maðurinn og Lasarus

Jesús sagði allt í dæmisögum og ein þeirra fjallar um ríka manninn og Lasarus. Dæmisögur hafa þann eiginleika að geta talað inn í margar aðstæður, þær er hægt að túlka á margan hátt. En Jesús hlýtur að hafa haft einhverja sérstaka meiningu í huga þegar hann sagði hverja og eina þeirra.

Sagan um ríka manninn og Lasarus í Lúk.16:19 fjallar ekki um að einhver hafi sankað að sér auð, hvort sem það var á heiðarlegan eða óheiðarlegan hátt og að sá fátæki væri hlunnfarinn af þeim ríka.
Nei, ríkidæmi ríka mannsins felst í því að hann og bræður hans voru gyðingar, þeir áttu fyrirheit Guðs - Lögmál Móse og spámennina. Fátækt Lasarusar fólst í því að hann var heiðingi.

Gyðingar kölluðu heiðingja ,,hunda" og þessi dæmisaga og Mark 7:26 segir að heiðingjar vildu gjarnan seðja sig á því sem félli af borðum gyðinga. Þeir vildu þiggja molana (fróðleiksmolana) sem eru Guðs orð en gyðingar héldu því fyrir sig.
Mark.7:26 Hverjir voru fátækir?  
http://bryndissvavars.blog.is/blog/bryndissvavars/entry/659218/

Ríkidæmið og fátæktin í sögunni er því andlegt en ekki veraldlegt.


Gyðingar - kristnir

Ég heyri það stundum að menn skipta gyðingum í 2 hópa... gyðinga og gyðing-kristna og eru menn þá væntanlega að telja þá gyðing-kristna sem hafa tekið kristna trú. 
En málið er mjög einfalt... ef búddisti tekur upp kristna trú verður hann kristinn, ekki búdda-kristinn. Ef múslimi tekur upp kristna trú verður hann kristinn, ekki múslima-kristinn og það er nákvæmlega eins ef gyðingur tekur upp kristna trú... þá verðu hann kristinn, ekki gyðing-kristinn.

Þessi flokkun á gyðingum, kemur sennilega út frá ritum fræðimanna nútímans. En þar rekst maður á aðgreiningu hins frumkristna safnaðar á 1.öld.
Þar eru menn að vísa til bakgrunns þeirra sem voru í hinum fyrstu söfnuðum... og til aðgreiningar nota þeir ,,heiðin-kristinn og gyðing-kristinn" en fólkið sjálft flokkaði sig sem gyðinga þar til í óeirðunum árið 49/50 er Kládíus rak alla ,,gyðinga" frá Róm. sbr. Post.18:2 og en í Rómv.16:3... eru þessir gyðingar samverkamenn í Kristi.

Við fall musterisins um árið 70... er talið að kristnir hafi aðgreint sig endanlega frá gyðingum. Strax á 1.öld finnast vísbendingar um að kristnir menn hafi aðgreint sig með því að taka upp sunnudaginn sem hvíldardag, þó páfi hafi ekki sett það í lög fyrr en árið 323.


Númer EITT

Orðið ,,testamenti” þýddi til forna eiður, skrifleg tilmæli, erfðaskrá eða ákvæði. Gríska og hebreska merkingin getur líka verið ,,sáttmáli.”  Sáttmáli í hinni fornu veröld þýddi bindandi samkomulag milli tveggja aðila og það var oft innsiglað með dýrafórn þ.e. blóði fórnardýrs.  Móses stofnsetti hinn Gamla sáttmála með dýrafórn á altari Guðs. Þennan sáttmála kallar Nýja testamentið lögmálið og boðorðin

Lögmálið samanstendur af 613 ákvæðum [1] og Boðorðin eru 10.... báðar tölurnar hafa þversummuna EINN.... Við höfum bara eitt líf og einn Guð og hann á að vera númer eitt hjá okkur.

[1] The Baker, Pocket Guide to The Bible (Kevin O´Donnell) bls. 19

Guðs ríki

Í Mark 9:1 segir Jesús við lærisveina sína. Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki komið með krafti.
Lærisveinarnir töldu að þeir myndu lifa að sjá endurkomu Jesú en Jesús hefur verið að tala um úthellingu heilags anda á Hvítasunnudag. 
Í Lúk 17:20 spurðu farisear Jesú hvenær Guðsríki kæmi... og hann sagði: Guðs ríki kemur ekki þannig að á því beri. Ekki munu menn segja: Sjá þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður.

Getur verið að menn almennt hafi talið ,,Guðsríki" og ,,Himnaríki" vera hið sama... og þýðingarvandamál eða seinnitíma misskilningur hafi viðhaldið þessum misskilningi.
Páll segir í Róm. 14:17... Því ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda.
Og í 1.Kor 4:20 segir Páll... Því Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti.

Það segja margir að þegar þeir opni hjarta sitt fyrir fagnaðarerindinu og taki við Jesú, þá breytist allt. Heimurinn er sá hinn sami, breytingin er innra með hverjum og einum. Við verðum nýjar manneskjur. Það má því segja að í þessari umbreytingu göngum við inn í Guðs ríki, þó við séum enn á jörðu.


Um hvað snýst kristin trú?

Fyrirsögnin segir sjálf svarið við spurningunni.... Kristin trú snýst um að trúa á Krist, ekki spádóma, hver sé antikristur eða hver hafi rétt fyrir sér um túlkanir á hinu ýmsu versum Biblíunnar. 

Sá sem kynnist Jesú og meðtekur hann sem frelsara sinn, þyrstir í að vita allt um hann... þá fyrst byrja hlutirnir að flækjast... því hinar ýmsu kirkjudeildir túlka ritninguna á ólíkan hátt og setja jafnvel verk framar trúnni, sem á þó að vera aðalatriðið.

Róm. 10:9-10
Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.

Þetta er mjög einfalt... sá sem trúir í hjarta sínu breytist... HEIMURINN ER SÁ SAMI.. sá sem trúir verður annar og betri maður... hann verður ekki fullkominn, en hann mun gera sitt besta til að vera ekki brotlegur við Guð og menn.
Meira er ekki hægt að gera.


Tala dýrsins 666

Ég fékk bækling inn um lúguna, ég þekkti strax að hann var frá Aðventistum. Hvíldardagurinn, Danielsbók og Opinberunarbókin eiga hug þeirra allan. Ég býst við að þessi bæklingur fari inn á hvert heimili.
Aðventistar eru besta fólk, ég hef oft farið á samkomu hjá þeim, finnst margt gott hjá þeim... en trúin er meira en hvíldardagurinn og spádóms-samlokurnar. 
Ég hef bloggað um það áður að Aðventistar telji Kaþólsku kirkjuna vera antikrist... eitt af táknunum er einmitt yfirskrift embættis páfa... VICARIUS FILII DEI... þar sem Aðventistar leggja saman rómversku tölurnar í nafninu og fá út tölu dýrsins 666

Eitthvað finnst mér skrítið að þeir telji bæði stafina V og U vera töluna 5 og þess vegna kíkti ég á þessa síðu á netinu sem sýnir hvernig rómversku táknin eru hugsuð og hvaða tölur gilda fyrir hvern staf.
http://gwydir.demon.co.uk/jo/numbers/roman/index.htm#count

Fáið þið út... 666 ?


Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband