Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Bláar myndir !

ólgandi haf

Ólgandi haf       35x120

Ég hef verið að dunda við að mála olíumálverk.  Um síðustu áramót bauð Edda systir mér að mála með sér í bílskúrnum heima hjá henni.  Hvílíkur munur, að þurfa ekki að pakka alltaf öllu niður.

Ég var þá í einhverjum ham með bláan lit, en hún var mest í brúnum litum.  Smám saman smitast hún yfir í blátt.... Um þetta leyti bauðst okkur að halda málverkasýningu á Listahátíð Hafnarfjarðar -Björtum Dögum- sem við þáðum.  Tvíefldumst við í blá litnum og ég stakk upp á að við settum stórt skilti framan á bílskúrinn, þar sem stæði.... Hér eru framleiddar bláar myndir.

Það er óþarfi að nefna að.... hún vildi það ekki.

Þeir sem hafa áhuga á að forvitnast meira um myndirnar mínar geta sent email á biddy@talnet.is


Hvar var trúin?

Bjólfskviðu-leyfarUm daginn var ég spurð: Hvað hefðurðu verið að gera undanfarið ? og ég gat varla svarað því.  Dagarnir hafa einhvern veginn flogið og ekkert skilið eftir sig. 

Eina helgina ætlaði ég að ganga Fimmvörðuháls, en mig hefur lengi langað til að ganga hann.  Þegar við komum á Skóga, hætti ég við vegna mikillar þoku.  Kanski var þoka ekki næg afsökun, en ég hef ekki gengið þessa leið áður og enginn mennskur ætlaði með mér.  Við keyrðum þá framhjá Bjólfskviðu-leyfunum upp í Þakgil, en vildum ekki gista þar og enduðum í Básum, þar sem ég hefði endað ef ég hefði gengið Hálsinn. 

 Borð fyrir 2 í Básum

Í Básum var hið dásamlegasta veður, hreyfði ekki vind, engin þoka.  Við grilluðum og nutum veðursins.           

Þvílík blíða og auðvitað var ég alltaf að hugsa að ég hefði átt að skella mér Fimmvörðuhálsinn, Guð hefði reddað veðrinu -létt þokunni- .....Og ég spyr....

Hvar var trúin hjá sjálfum guðfræðinemanum ?


Að ganga með Guði

Yfirleitt þegar maðurinn ætlar að skreppa í Selvoginn, þá bið ég hann að keyra mig þangað sem Bláfjallavegurinn sker Selvogsgötuna, svo ég geti gengið leiðina.  Þá eru ca 18 km til Selvogs.  Um þar síðustu helgi ætlaði hann að framlengja palli við hjólhýsi systur sinnar og ég gekk yfir.  Gekk hratt, enda ein ! borðaði og drakk gangandi og var nákvæmlega 3 klst.   Þegar ég var komin í hjólhýsið spyr mágkona mín......og gekkstu þetta ein?..... Nei svaraði ég.. ég er nú aldrei ein, Guð er alltaf með mér.  Þá kom þögn svolitla stund en svo spurði hún... og mættuð þið Guð einhverjum?


Heilsuátak ?

Ég las einhversstaðar frétt um kaloríusnautt fæði sem virkaði fitandi.  Hjúkkett, ég hélt að það væri eitthvað að mér.  Ég hafði nefnilega komist að þeirrri niðurstöðu að þegar ég fer á fitulaust eða fitusnautt fæði, þá þyngist ég.  Ég þyngist af því að ég er allan daginn að borða eitthvað HOLLT og líður alltaf eins og ég viti ekki hvort ég sé búin að borða eða ekki.  En svo grilluðum við um daginn, örfá en hrikalega feit lambarif..... sem hafði þau áhrif að matur hvarflaði ekki að mér fyrr en daginn eftir. 

Sumt er svo öfugsnúið, í denn mokaði ég 2 kúf-fullum teskeiðum að sykri í kaffibollann og var grönn.  Svo þurfti maðurinn að taka upp á því að vigta þessar teskeiðar og margfalda fyrir árið og fékk út að ég notaði 50 kg á ári í kaffið og hann annað eins.  Við minnkuðum samstundis sykurneysluna um helming, niður í eina teskeið og svo um ári seinna hættum við í sykrinum.  Við þetta heilsuátak fitnuðum við bæði, og kannski helst hægt að kenna því um að nú eigum við það til að fá okkur eitthvað meðlæti með kaffinu. 


Orðin óður bloggari...

Ég trúi því ekki að þú sést á blogginu.... er kallað úr stofunni.  Hvernig dettur þér það í hug svara ég  Blush... æ, jú, ég er ekki alveg búin að læra á þetta, skil þetta ekki alveg.  þá er ekkert annað að gera en að fikta, eins og Mein Sohn segir..... þannig lærir maður mest.  En mig langar oft að segja að ég megi ekki vera að þessu fikti, það fer allt of mikill tími í það.  Betra að fá upplýsingarnar STRAX.  Svona er það, þegar maður er í fullu starfi við að leika sér, þá er enginn tími fyrir fikt.

Tíminn er alltaf að setja hraðamet.  Alvaran og tímaskortur mun mæta allt of snemma á staðinn.  Háskólinn byrjar 4 sept. og eftir það verða dagarnir með einfaldri dagskrá, vakna, skóli, lesa, hlaupa, lesa, sofa..... og þá mætti sólarhringurinn vera lengri.  Sleeping

 


Verkaskipting...

Það nægir víst ekki að hafa eitt áhugamál... heldur verður maður að hafa nokkur.  Söfnunarárátta í áhugamálum.  Áhugamál mín eru orðin nokkur, ég fór í guðfræði í Háskóla Íslands, er í skokkhópi sem ber nafnið Byltur, í hjólaklúbbi hafnfiskra kvenna (HHK) og svo finnst mér gaman að ganga á sumrin. Ég fer t.d. Selvogsgötuna á hverju sumri.  Það er sem sagt nóg að gera við tímann og enginn tími til að vinna launaða vinnu.   

En þetta er það sem á fagmáli kallast verkaskipting, ég sé um áhugamálin og maðurinn sér um að vinna.  Annars gildir þessi 50/50 regla hjá okkur hjónum í öllu heimilishaldi.  Hann tekur hluti og skilur eftir um allt hús, ég tek þá og set á sinn stað.  það er 50/50.  Hann tekur rúmteppið af rúminu á kvöldin, ég set það á morguninn eftir.  það er 50/50. Hann eldar (hann segist svelta annars) og ég geng frá í eldhúsinu. það er 50/50.   Ef við förum í boð, þá keyrir hann þangað og ég heim .......mjög hagkvæmt.  Hann vinnur fyrir peningunum og ég eyði þeim..... mjög hagkvæmt.  


Dýrgripirnir !

Ég er að mála. . .  olíumálverk.  þannig hobby er plássfrekt, allavega þegar málverkin fara að hrannast upp, því er ekki annað að gera en að reyna að selja þau einhvern veginn, setja upp gallerí.

Íslendingar eru frægir fyrir að eiga ómetanlega dýrgripi (svokallað GEYMSLUGULL) í geymslunum, en ég verð að segja eins og er að mér finnst lítið spennandi að mála... til þess eins að setja málverkin í geymsluna.


Aldrei að segja aldrei.....

Já, undur og stórmerki, ég er komin með bloggsíðu, ég sem hef aldrei nennt eða haft áhuga á að lesa blogg annarra. Ég hef samt alla tíð haft einhverja þörf fyrir að skrifa dagbók.... en ekki svo að aðrir hafi getað lesið hana.

Ég hef þá skoðun að blogg og dagbók sé sko alls ekki það sama.... Blogg geymir aldrei sömu upplýsingar og persónuleg dagbók.  Hver er tilgangurinn með skrifum allra þessara bloggara? ætli nokkur geti svarað því.

Meira næst.....    


« Fyrri síða

Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband