Leita í fréttum mbl.is

Aðeins ein synd...

Hvað höfum oft heyrt að trúin er allt sem þarf? Við viljum trúa þessu - en trúum við því í raun og veru? Manneskjan á nefnilega frekar til að flækja málin en einfalda.... oft í góðri trú.

Kirkjuleiðtogar hafa í gegnum tíðina endalaust flækt líf fólks með því að gera bókstaflega allt að synd, jafnvel þó Jesús hafi komið og boðað lausn frá erfikenningunum sem þjáðu menn þá, þá lifir þessi hugsun enn...

Jesús sagði í Jóh 16:9 ,,syndin er, að þeir trúðu ekki á mig" ..... mjög einfalt ekki satt!

Það er trúin sem frelsar okkur... ekki verkin.

Móse fór tvisvar upp á fjallið til að sækja boðorðin. Fræðimenn sem rannsaka forna texta hafa oft furðað sig á hvers vegna hann fór með tvær steintöflur, þegar ein hefði auðveldlega dugað.
Hinar gömlu Misna-bækur gyðinga svara þessari spurningu... ástæðan var að önnur taflan varðaði sambandið við Guð en hin varðaði sambandið milli manna.
 
Brot á sambandinu við Guð - var synd... brot á sambandinu milli manna, voru afbrot sem var hegnt fyrir á staðnum eða í jarðlífinu... þessi afbrot eru ekki synd.

Siðbótamaðurinn Marteinn Lúther ávítaði kirkjuna fyrir að gera öll boðorðin að synd... hann skipti þeim í tvo flokka eins og Misna-bækur gyðinga.  Skiptingin er fyrir framan hvíldardagsboðorðið því hvíldardagurinn var gerður mannsins vegna.

Fyrri hluti boðorðanna varðar sambandið við Guð... sbr. orð Jesú : syndin er að þeir trúðu ekki á mig.... en seinni hlutinn varðar dagleg samskipti manna og brot á þeim varðar í flestum tilfellum landslög. Þau brot eru ekki synd. 
Biblían segir að við séum undir náð, ekkert sem við gerum -annað en að trúa á Jesú- getur bjargað okkur.

Nú vitum við öll að það er erfiðast af öllu að fá fólk til að skipta um skoðun.... Það var líka þannig á dögum Jesú, það varð að blinda Pál postula (post 9:8) svo hann fengi nýja sýn.... og gera Sakaría föður Jóhannesar skírara mállausan (Lúk 1:20) svo hann gæti sagt frá...

En það hlýtur að vera léttir fyrir okkur.... að trúa því að, allt sem þarf er að trúa...
allt annað sem við gerum af góðum verkum - fær okkur til að líða betur og vera sáttari við sjálf okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Góð grein kæra Bryndís og er ég þér í einu og öllu sammála!

Guðsteinn Haukur Barkarson, 9.9.2008 kl. 13:26

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæl kæra Bryndís.

Ég mátti eigi bindask vegna þess sem þú skrifar. Set hér inn pistil sem ég hef verið að undirbúa, þó hann sé ekki fullburða ennþá, til að setja inn á síðuna mína. Læt hann flakka hér þar sem hann kemur inn á það sem þú ert að skrifa hér.

Það er með ólíkindum hve margir, jafnvel andlegir leiðtogar og kennimenn, sem enn halda því óhikað fram, að Guð hafi numið Boðorðin tíu úr gildi, og að í dag séum við frjáls undan þessu ánauðaroki, sem þeir telja Boðorðin vera.

Við slík tækifæri ber að sýna mönnum hvað sjálfur Drottinn hefur að segja um slíka. Lítum fyrst hvað segir í 4.og 5. versi annars kafla fyrra bréfs Jóhannesar :


Sá sem segir: Ég þekki hann, og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.



Lítum þessu næst á 26.og 27.vers 36. kafla Esekíels :


Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi. Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setningar mína og breytið eftir þeim.



Í 13. og 14. versi tólfta kafla Prédikarans segir :


Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.



Það er hægt að líkja Boðorðunum tíu við spegil, sem sýnir manni  óhreinindin á andlitum okkar  þegar maður lítur í hann. Lög Guðs sýna manni að maður er syndari í þörf fyrir að einhver annar komi til sögunnar, það er Jesús Kristur, og hreinsi mann af öllu ranglæti. Það er ekki hægt að nota spegilinn til að þvo af manni óhreinindin. Boðorðin voru aldrei ætluð til þess að koma í staðinn fyrir Frelsarann. En einhver annar, og það er Frelsarinn, þurfti að koma okkur til hjálpar. Einhver, sem er syndlaus, sem getur haft öll boðorðin fullkomnlega í heiðri. Þannig sýndi Drottinn að boðorð Guðs eru nauðsynleg, réttlát og góð.


17.-19 vers 5. kafla Matteusarguðspjalls segir :


Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.



Hvað sem menn segja, og hvað sem líður mótsagnakenndum kenningum og boðskap manna, þá hlýtur alltaf að vera öruggast að fara að leiðbeiningum sjálfs Drottins Jesú Krists. Hann kom ekki til að afnema lögin sem Hann setti okkur, heldur kom Hann til þess að uppfylla kröfur þeirra, sem er skilyrðislaus hlýðni. Og þar sem allir eru syndarar allt frá Adam og Evu til okkar sjálfra, þá erum við sek og eigum enga möguleika á eilífu lífi nema að til komi einhver sem er saklaus og syndlaus, eins og Jesús Kristur er, og taki á sig dauðasök okkar.


Þetta gerði Kristur. Í stað þess að nema úr gildi hið minnsta af boðorðum Guðs, til að bjarga okkur frá dauðadómi, þá dæmdi Hann okkur til dauða, en tók síðan út dauðadóminn á Golgata fyrir okkur syndarana. Þannig náðaði Hann alla sem vilja þiggja hjálpræði Hans. Og þar sem við nú höfum meðtekið náðargjöf Hans og fyrirgefningu, erum við þá frjáls til þess að brjóta gegn stjórnarskrá Guðs? Fjarri fer því, segir Páll postuli, heldur staðfestum við réttmæti dómsuppkvaðningarinnar yfir okkur og þökkum svo Jesú Kristi fyrir af öllu hjarta fyrir það, að hann ber syndabyrðina fyrir okkur. Guði sé lof fyrir náð hans og miskunn! Guði sé lof fyrir kærleika hans okkur til handa.

 

 

Hugsið málið vel. Sjálfur Kristur komst svo vel að orði og setti málið í hnotskurn, er hann sagði:


“Ef þér elskið mig, þá haldið boðorð mín.”
  

Lítum þessu næst hvað segir í áttunda versi 13. kafla Hebreabréfsins :


Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.


Já, Drottinn er alltaf hinn sami og Hann breytist ekkert. Og Hann breytir heldur ekki grundvallarlögunum,  stjórnarskrá Guðsríkisins. Það er engin þörf á að breyta lögum Guðs. Hins vegar þurfum við að breytast og við þurfum að læra að elska fyrirmæli Drottins.


Svo segir í 22.-23. versi í 66. kafla Jesaja :


Já, eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti segir Drottinn eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt. Og á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, Hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér segir Drottinn. 
  

Við skulum rifja hér upp fyrirheit Guðs varðandi Hvíldardaginn, eins og við getum lesið um það  í  13.-14. versi í 58. kafla  Jesaja :


Ef þú varast að vanhelga Hvíldardaginn, varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum, ef þú kallar Hvíldardaginn feginsdag, hinn helga dag Drottins heiðursdag og virðir hann svo, að þú framkvæmir ekki fyrirætlanir þínar, annast ekki störf þín né talar hégómaorð, þá munt þú gleðjast yfir Drottni og þá mun ég láta þig fram bruna á hæðum landsins og láta þig njóta arfleifðar Jakobs föður þíns, því að munnur Drottins hefir talað það.



Sá sem vill þiggja aðra títt nefnda gjöf sem Guð gefur fólki sínu, þ.e. fyrirgefninguna og eilífa lífið, vill sá hinn sami ekki líka þiggja þessa góðu gjöf frá Honum sem Hvíldardagurinn er? Lítum á hvernig Esekíel spámaður orðaði þetta í 12. versi 20. kafla  Esekiels :



Ég gaf þeim og Hvíldardaga mína, að þeir væru sambandstákn milli mín og þeirra, til þess að menn skyldu viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá, sem helgar þá. 

  

Hvað hafði sjálfur Frelsarinn að segja um lög og meginreglur Guðdómsins? Lítum á vers 17-19  í 5. kafla  Matteusarguðspjalls :



Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.  Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. 

  

Og hvað gerðu lærisveinar Drottins löngu eftir uprisu hans og uppstigningu til himins hvað helgihald snerti? Það getum við lesið um  í orðum Páls postula í 2. versi 17. kafla Postulasögunnar :


Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá Hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum,


Páll postuli sótti kirkju á Hvíldardegi Drottins, 7. dag vikunnar. Hvað hefur breyst, og hvernig breyttist það?


Kristin kirkja, á öldum vanþekkingar og fáfræði, segist hafa skipt um Hvíldardag með eigin valdi. Eftirfarandi yfirlýsingu er að finna á 50. blaðsíðu í Lærdómskveri kaþólskra kenninga eftir Peter Geiermann, Þar í nokkrum spurningum og svörum segir orðrétt:

“Spurning: Hvaða dagur er Hvíldardagur?
Svar: Það er laugardagurinn.
Spurning: Hvers vegna höldum við sunnudaginn þá helgan?
Svar: Vegna þess að Kaþólska kirkjan færði helgi Hvíldardagsins yfir á sunnudaginn.”




Um þessa breytingu á Hvíldardegi Drottins hafði hinn frægi kardínáli, James Gibbon í Baltimore í Bandaríkjunum, þetta að segja: “Kaþólska kirkjan staðhæfir, að hún hafi gert breytinguna. Og þessi breyting er merki þess, að kirkjan hefur vald og myndugleik í andlegum málum.”



Sömuleiðis er hér  tilvitnun í kaþólskar heimildir í blaðinu The Catholic Record,  1. september, 1923. Þar segir orðrétt:

“Sunnudagurinn er merki um vald okkar. . . . . Kirkjan er ofar Biblíunni, og breyting Hvíldardagsins er sönnun þessarar staðreyndar.” 
  

Hvaða augum lítur  Jesú Kristur það þegar menn fikta við Orð Guðs? Sjáum um það í 3. versi sem og í  því 7.-9. versi 15. kafla Matteusarguðspjalls :



Hann svaraði þeim: Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar? . . . Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar. 
  Sjálft Nýja testamentið leggur ríka áherslu á það, að öll boðorðin séu í gildi áratugum eftir dauða og upprisu Jesú Krists. Þetta kemur hvað best í ljós í Jakobsbréfinu og Opinberunarbókinni. Skoðum fyrst 10.-12. vers annars kafla Jakobsbréfsins :



Þótt einhver héldi allt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess. Því sá sem sagði: Þú skalt ekki hórdóm drýgja , hann sagði líka: Þú skalt ekki morð fremja. En þó að þú drýgir ekki hór, en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið. Talið því og breytið eins og þeir, er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins.


Hér nefnir Jakob fáein boðorðanna til þess að enginn velkist í vafa um hvaða lög og reglur Guðs hann eigi við, sem sé Boðorðin tíu. Brjóttu gegn einu þeirra og þú hefur brotið þau öll, segir þessi lærisveinn Krists a.m.k. 30-40 árum eftir dauða og upprisu Jesú Krists. Lærisveinninn Jóhannes skrifaði um boðorðin, þegar hann var kominn á efri ár og langt um liðið frá upprisu Jesú Krists. Hann segir í 3.-4. versi annars kafla fyrra Jóhannesarbréfs :

  Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.  Sá sem segir: Ég þekki hann, og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.   

Annað Þessalónikubréf 2. kafli vers:9-12 :



Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir. Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni. Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu.




Í augum Guðs er mikilvægt að við lærum ekki aðeins að þekkja sannleikann, þar með taldar meginreglur Drottins, heldur einnig að við lærum að elska sannleikann. Það er mikill munur á því að þekkja sannleika Guðs og að elska þann sama sannleika. Lítum nú aftur í Gamla testamentið og sjáum viðhorf Guðs gagnvart þeim sem áttu að sýna öðrum fordæmi í þessu efni, en brugðust gjörsamlega.

Þetta sjáum við í  26. versi 22. kafla Esekíels :



Prestar hennar hafa brjálað lögmáli mínu og vanhelgað helgidóma mína. Þeir hafa engan mun gjört á því, sem heilagt er og óheilagt, og eigi frætt menn um muninn á óhreinu og hreinu, og þeir hafa lokað augum sínum fyrir Hvíldardögum mínum, svo að ég vanhelgaðist meðal þeirra.


Gleymum því ekki  að Boðorðin tíu eru stjórnarskrá Guðsríkis og að allt fólk Guðs mun verða að hafa þau í heiðri um alla eilífð. Það er því mikilvægt að við virðum þau núna, einig hér í þessu ríki sem við lifum í nú. 

 

Margt fleira mætti tína til um þetta áhugaverða efni. En nú ætti sérhverst kristinn að íhuga þann boðskap sem prestar, hvort sem er Hvítasunnuhreyfingarinnar, Kaþólikka eða Þjóðkirkjunnar, hafa að færa söfnuðum sínum um Hvíldardag/Sabbathsdag Drottins og bera það saman við Ritninguna eins og t.d. hér hefur verið vísað í.

Hugið að því hvort þeir taki Orð Drottinns fram yfir mannasetningar eins og Hann kallaði þær.

 

Ég spái því að sannkristnir muni verða mjög undrandi yfir boðskap presta sinna og fræðimanna.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 11.9.2008 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband