Leita í fréttum mbl.is

Keflavik - London - Istanbul - Dubai

22.jan... 
Lúlli vakti mig rúmlega 4 am... og við vorum lögð af stað kl 5... að sjálfsögðu borðuðum við morgunmatinn á betri stofunni... það er frábært að byrja þar. Við áttum flug um kl 8 með Icelandair til London Heathrow. Þar biðum við í tæpa 4 tíma. Næsta flug var með Turkish Airline til Istanbul... Lággjaldaflugfélag en öll hugsanleg þjónusta innifalin. Við fengum matarbakka með heitum mat, köku og hvað sem við vildum að drekka með og þjónustan frábær. Í Istanbul biðum við í 2 og hálfan tíma og flugum áfram með Turkish Airlines til Dubai. Eins og áður var öll þjónusta í boði... heitur matur og allir drykkir, frí taska með svefngrímu, eyratöppum, flugsokkum og heyrnatól fyrir skemmtiefnið. Þá var leikjatölva í sætisbakinu... en báðar vélarnar voru 500 manna breiðþotur. Við lentum í Dubai um kl 7 um morgun... rúmum sólahring eftir að við fórum að heiman. 

Holiday Inn Express Dubai, Internet City, Knowledge City P.O. Box 282647 Dubai
Tel : +971044275555   room 146

23.jan...
Við tókum leigubíl á hótelið... ég svaf örugglega ca 2 tíma í síðasta fluginu en Lúlli svaf eitthvað meira. Við fengum ekki herbergið strax. Við fengum að geyma töskurnar í lobbyinu og ákváðum að taka lestina og skoða hæsta turn í heimi. Lestarkerfið er ekki svo flókið og greiðslukerfið eins og í London. Við keyptum okkur kort með inneign og fórum út við Dubai Mall. Hvílíkir gangar frá lestarstöðinni í mollið (ég frétti seinna að það væri 1km) 
Neðst niðri í einu horni var selt upp í turninn... ég athugaði verðið... 580 aed á mann (100 usd eru 344 aed ) hvílíkt verð. Það væri um 34 þús fyrir okkur bæði og mengunin er mikil svo að skyggni er lélegt... þetta er ekki þess virði. Þegar við komum til baka fengum við herbergið og við borðuðum kvöldmat á hótelinu og fórum snemma að sofa.
Við upplifðum í fyrsta sinn kynjaskipta lestarvagna og strætó.

24.jan...
Við tókum strætó á hótelið þar sem gögnin voru afhent. Þetta var lítið expo. Ég fékk nr 1466. Maraþonið er á föstudegi sem er helgur dagur hér... Við kíktum í mollið hinu megin við götuna, fengum okkur að borða, kíktum á ströndina og tókum því rólega... og strætó til baka...  það var hlýtt og gott en alltaf þetta mistur í loftinu. Ég ætla ekki að ganga mig upp að hnjám fyrir þetta hlaup. Við vorum aðeins og sein að kaupa okkur skoðaunarferð á morgun, sölumaðurinn var farinn af hótelinu. 

25.jan...
Fyrst við misstum af skoðunarferð til Abu Dabi í dag ákváðum við að fara í enn eitt mollið, Mall of the Emerites... og ég sem ætlaði ekki að ganga mikið í dag EN það er víst ekki hægt að komast hjá því í útlöndum. Við gátum hamið okkur og vorum komin snemma á hótelið. Ég reyndi að fara snemma að sofa en gekk illa að sofna... svo hringdi mamma kl 10:30 með slæmar fréttir og ég svaf lítið eftir það.

26.jan...
Klukkan var stillt á 4 am til að komast í maraþonið... 
https://byltur.blog.is/blog/byltur/entry/2209927/

Ég þurfti að ganga rúman km frá markinu í strætó eftir hlaupið og svo varð ég að standa í strætó á leiðinni, því ég hafði hellt svo miklu vatni yfir mig á leiðinni að ég var blaut niður í skó. Ég byrjaði á að helgja fötin upp og leggja mig aðeins... ég komst ekki í sturtu strax út af nuddsárum... en eftir sturtuna fórum við út að borða, gengum frá dótinu og lðgðum okkur til kl 23 því á miðnætti áttum við pantaðan leigubíl upp á flugvöll.

27.jan...
Fyrsta flug hjá okkur var kl 2:40 til Istanbul. Það er frábært að ferðast með Turkish Airlines, þjónustan er frábær hvort sem það er nótt eða dagur. Fluginu seinkaði um hálftíma og við vorum aðeins stressuð yfir að ná næsta flugi en svo var meiri tímamunur en okkur minnti... næsta flug var með Turkish Airlines til London Gatwick og þaðan flugum við með Icelandair. Alltaf gott að koma heim.


Keflavík - Kaupmannahöfn - Kairó - Luxor 5-13.jan 2018

Fyrsta ferð ársins er til Luxor í Egyptalandi. Við gátum ekki flogið beint svo að við fórum með Icelandair til Kaupmannahafnar. Þaðan flugum við sama dag til Kairó með EgyptAir, þar sem við gistum í 3 nætur... Egypt Air fór svo með okkur til Luxor þar sem við gistum í 5 nætur.

5.jan... Flug til Kaupmannahafnar og þaðan til Kairó. Við fengum okkur leigubíl á flugvellinum og bílstjórinn Hassan var síðan með okkur þar til við flugum til Luxor. 

Golden Park Hotel Cairo Heliopolis
221 El Hegaz Street Cairo 11351 EG   
sími +20226208668 room 256

20180106_Gisa Egyptaland6.jan... Hassan var mættur kl 9 og við fórum fyrst á Papírus verkstæði þar sem við fengum sýnikennslu í gerð pappírs... þá fór hann með okkur að skoða fyrstu píramídana sem voru byggðir og söguna hvernig þeir breyttust með tíma og reynslu byggingarmanna. Hassan er fornleifafræðingur... við vorum heppin að fá mann sem vissi þetta allt.

Við skoðuðum grafhýsi og fórum inn í píramída. Göngin eru mjög brött og lág til lofts og því erfitt að fara niður í þau. Þá fórum við á Gisa svæðið þar sem frægustu píramídarnir eru. Þeir eru 3 stórir og nokkrir minni í kring. Sorglegt hvað þjóðin hefur verið rænd af gersemunum þeirra. Við fórum á svæði Bedúína og kameldýra þeirra... lífshættir þeirra hafa lítið breyst frá biblíutímum.
Á Gisa svæðinu var líka Sfinx-inn... engin smá stytta. Við borðuðum kvöldmat á veitingahúsi sem var með útsýni yfir Gisa svæðið. Hassan skilaði okkur um kl 5.
Kairó er mjög sóðaleg borg og það er stjórnvöldum að kenna... draslið safnast upp því það eru engin úrræði fyrir fólk að losa sig við það, fátæktin er mikil og sölufólk hræðilega uppáþrengjandi. Mengun er mikil og lögregla með hríðskotabyssur á hverju strái.

20180106_Gisa Egyptaland7.jan... við tókum því rólega til kl 3 eh, þegar við vorum sótt og keyrð á markaðinn. Það er viss upplifun en um leið erfitt að geta ekki skoðað neitt án þess að vera valtað yfir mann af uppáþrengjandi sölumönnum. Bílstjórinn beið eftir okkur kl 4:45 til að keyra okkur í skip. Við fórum í rúmlega 2ja tíma siglingu á Níl, siglingu sem innihélt mat og sýningu, magadans og sirkus/listdans... eða hvað það heitir.

8.jan... Eftir morgunmat fórum við með leigubíl í flugstöðina og tékkuðum okkur inn. Þar var stanslaus öryggisgæsla em tilheyrandi töskuskönnun... og í síðasta skanna fyrir flugtak tóku þeir af mér sport-tape og örsmá skæri... svo ég get ekki teypað tærnar fyrir næsta maraþon. Flugið tók um klst. Þegar við lentum tókum við leigubíl á hótelið Maritim Jolie Ville og sömdum við bílstjórann, Ali að sækja okkur daginn eftir. Við erum í hvílíkum lúxus hér... eins og Paradís.
Við borðuðum kvöldmat á buffeti hótelsins. Það vantað mikið upp á hreinlæti í mat í þessu landi og við erum komin með í magann.
Þegar skráði mig í maraþonið þurfti ég að kaupa pakka sem innihélt skráningu, 3 nætur á þessu hóteli, rútu til og frá starti/marki og verðlaunahóf með mat og skemmtiatriðum.

Maritim Jolie Ville Kings Island Luxor
Aswan Road - Kings Island Luxor EG
Sími +20952274855... íbúð D6

20180109_Hatshepsut Temple9.jan... Ali var mættur kl 9 og fór með okkur út um allt. Fornminjar liggja hér eins og hráviður um allt... Við skoðuðum Konungadalinn, Drottningadalinn, Madinet Habu (Temple of Ramses) Deir El-Medina og Temple of Hatshepsut sem var rosaleg stórt og frægt musteri. Hvílík saga í kringum allt og ótrúlegt þrekvirki það hefur verið að búa til grafhýsin og skreyta þau að innan. Því miður mátti sjá veggjakrot frá síðustu öldum innan um heraklífurnar. Fyrir alger mistök umsjónarmanna, komst ég niður í grafhýsi Nefertari... það voru engin skilti, enginn vörður sem passaði innganginn en það kostaði 1000 le aukalega að skoða þessa gröf í Drottningadalnum.

https://www.youtube.com/watch?v=TBwj42bupJI

10.jan... Ali sótti okkur kl 10 og keyrði í Luxor Temple, Karnak Temple, Mummification Museum og svo skoðaði ég veginn milli hofanna tveggja en hann er í uppgreftri núna. Við borðum bara morgunmat og kvöldmat á hótelinu því við þorum ekki að borða annars staðar... en við sjáum að þeirra hreinlæti er ekki á sama stigi og okkar, það þykir ekkert tiltökumál að kreista brauð til að finna hvort það sé mjúkt... en skilja það svo eftir á bakkanum.  
Fjölbreytnin er mikil hjá þeim og við höfum ekki séð sömu réttina tvisvar á kvöldin. Við erum bæði orðin mjög slæm í maganum. 

20180108_Jolie Ville Luxor Egyptaland11.jan... Í dag tókum við það rólega, láum í sólbaði, horfðum yfir hina frægu Níl og á bátana og skemmtiferðaskipin sem sigldu þar. Við erum á eyju í Níl... það eru verðir við brúna sem sprengjuskoða undirvagn bílsins og kíkja í skottið í hvert skipti sem við komum aftur á hótelið... þá þarf bílstjórinn að skilja ökuskírteinið sitt eftir í hliðinu. Við sáum líka verði við bryggjuna. Ég sótti númerið kl 16:30 í anddyri hótelsins og fékk síðustu upplýsingar fyrir maraþonið á morgun. Það var brúðkaupsveisla í hinu megin í matsalnum þegar við fórum í kvöldmat og skemmtiatriðin voru magadans og ljósa/sirkusdans eins og var í skipinu í Kairó.
Ég tók til hlaupadótið og við fórum snemma að sofa.

12.jan... Við vöknuðum 4:15... allt um Luxor Marathon á byltur.blog.is
https://byltur.blog.is/blog/byltur/entry/2209491/

Eftir maraþonið, tók ég það rólega... fór ég í sturtu og svo klæddum við okkur fyrir verðlaunahófið en enginn fékk verðlaunapeninginn afhentan í markinu. Þetta hóf var auðvitað bara peningaplokk eins og öll ferðamennskan hér. Við stoppuðum ekki lengi eftir matinn,(sáum þó magadansinn)... vegna þess að við áttum flug snemma í fyrramálið.

13.jan... Við vöknuðum 2:45, því við vorum búin að semja við Ali að sækja okkur kl 3:30. Það er um hálftíma keyrsla upp á flugvöll. Það er svosem gott að það sé góð öryggisgæsla en við fórum 4x í gegnum skanna og 6x sýndum við farmiðann. Við flugum kl 6 til Kairó... flugum kl 10 til Kaupmannahafnar... og kl 20 heim. Harpa sótti okkur upp á völl og það voru smá viðbrigði að koma í snjóinn og kuldann en ALLTAF gott að koma heim.


Áramóta annáll fyrir árið 2017

Gleðilegt ár 2018

Við Lúlli óskum öllum Guðs blessunar, gæfu og góðs gengis á komandi ári um leið og við þökkum fyrir liðin ár. 

Elsta langömmubarnið okkar er 6 ára í dag, nýjársdag og byrjar í skóla á þessu ári, hún á heima í Noregi. Elsku Emilía Líf krúttið okkar, innilega til hamingju með daginn þinn. Vonandi getum við einhverntíma mætt í afmælið þitt.

Síðasta ár (2017) var ótrúlega fljótt að líða og viðburðarríkt. 

FJÖLSKYLDAN 

Það varð ekki fjölgun í fjölskyldunni en alltaf gleðilegt þegar allt gengur sinn vanagang og öllum gengur vel. Við erum mjög stolt yfir öllum okkar börnum, barnabörnum og barna-barnabörnum en það má nefna að sonurinn byrjaði í lögfræði í Háskóla Íslands og hefur gengið vel í haust og Lovísa hljóp sitt fyrsta hálf maraþon.

STÓRAFMÆLI ÁRSINS

Harpa átti stórafmæli í október, varð 40 ára. Að venju á stórafmælum fórum við út að borða og að hennar vali í keilu á eftir.

FERÐALÖG

Við þreytumst ekki að ferðast, amk ekki ég. Ég fór 3 ferðir ein til USA, 1 stelpuferð með Lovísu og systrum mínum, 1 sinni með Svavari og 7 sinnum kom Lúlli með. Allar ferðirnar utan ein voru hlaupaferðir.
Þetta voru alls 12 ferðir til útlanda. 9 ferðir til USA og 3 til Evrópu en við Lúlli fórum til Rómar og Lissabon.... og við Svavar til London og Parísar.

Í ævintýraferð okkar Svavars skoðuðum allt það markverðasta í London auk hins víðfræga Stonehenge og tókum svo lestina til Parísar þar sem helstu ferðamannastaðirnir voru heimsóttir og merktir okkur.  

Vala og Hjörtur komu með okkur Lúlla til USA í maí/júní þar sem við heimsóttum Niagara fossana, Mount Rushmore, Devils Tower og fl. ekkert smá ævintýri þar.

HREYFING

Ég hljóp 16 heil maraþon á árinu... Við systur tókum ratleikinn eins og undanfarin sumur og að þessu sinni kláruðum við allar leikinn, fundum öll 27 spjöldin...

https://www.youtube.com/watch?v=w_3cW2WEQ6g&t=12s

ég fór nokkrar ferðir á Helgafellið mitt og eina ferð á Esjuna. Annað árið í röð varð ekkert úr því að ég færi Selvogsgötuna. Ég losnaði að mestu við meiðslin sem ég hef haft þannig að í haust sá ég fram á að geta farið að æfa meira... það gengur vel en ég þori samt ekki að fara of geyst í það. Við systur syndum áfram á föstudögum... ég hljóp eitthvað smávegis og hjólaði tvisvar í viku með Völu.

Þetta ár verður enn meira spennandi... og meiri ævintýri bíða :)

Hlaupa annállinn er kominn á http://byltur.blog.is/blog/byltur/

PS.

Ég braut blað er ég sótti um prestsembætti í fyrsta sinn haustið 2016... 2017 sótti ég um nokkur brauð... en kannski verð ég bara að baka þetta blessaða brauð sjálf.


Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Jan. 2018
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband