Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Búsáhaldabylting þess tíma - Matt. 27.kafli

-1- Að morgni gjörðu allir æðstu prestarnir og öldungar lýðsins samþykkt gegn Jesú, að hann skyldi af lífi tekinn.
-2- Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.
-11- Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: Ert þú konungur Gyðinga? Jesús svaraði: Þú segir það.
-12- Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir, en hann svaraði engu.
-15- Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa lýðnum lausan einn bandingja, þann er þeir vildu.
-16- Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni.
-17- Sem þeir nú voru saman komnir, sagði Pílatus við þá: Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?

Trúr gyðingur gerði eins og æðstu prestarnir og öldungarnir fyrirskipuðu og þeir höfðu ákveðið að láta krossfesta Jesú.... en það er spurning hvort nafnið Barabbas hafi átt þátt í því hve þeim reyndist auðvelt að fá fjöldann með sér þegar þeir hrópuðu nafn þess sem þeir vildu lausan.
Bar þýðir sonur og Jesús notaði orðið ,,abba faðir"(Mark 14:36) þegar hann bað til Guð föður...
Bar-abbas hefur því getað skilist sem Sonur-Guðs föðurs.
Múgurinn og hermenn landshöfðingjans æstist upp við skrílslætin. það nægði ekki að Jesús væri dæmdur til dauða á krossi - heldur þurfti að auka sem mest á niðurlæginguna... Kristur var hæddur (27-29v), hrækt á hann og hann sleginn (30v). Spádómar ritningarinnar rættust.

-37- Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.

Í 3 klst... frá hádegi til nóns var myrkur (45-46v) og þegar Jesús gaf upp andann (50v), skalf jörðin, björg klofnuðu, grafir opnuðust og fortjaldið í musterinu rifnaði í tvennt (51-52v).
Síðustu skráð orð Jesús voru... Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?... fortjaldið rifnaði... Guð hafði haft afseturskipti.


Tákn Jónasar - Matt. 26.kafli

-2- Þér vitið, að eftir tvo daga eru páskar. Þá verður Mannssonurinn framseldur til krossfestingar.
-3- Æðstu prestarnir og öldungar lýðsins söfnuðust nú saman í höll æðsta prestsins, er Kaífas hét,
-4- og réðu með sér að handsama Jesú með svikum og taka hann af lífi.
-5- En þeir sögðu: Ekki á hátíðinni, annars verður uppþot með lýðnum.

Páskar voru haldnir á 14.degi í fyrsta mánuði ársins (4.Mós 28:16)... dagurinn á eftir var helgur, ekkert mátti starfa... Þann dag hófst hátíð hinna ósýrðu brauða. 
Mér skilst svo að Guð hafi fyrirskipað Ísraelsmönnum að slátra páskalambinu og eta að kvöldi hins 14.dags (2.Mós. 12:1-8) en samkvæmt 17v borðar Jesús páskalambið með lærisveinum sínum að kvöldi 15.dags mánaðarins, þ.e. hins fyrsta dags hinna ósýrðu brauða...
Hátíðir gyðinga gátu lent á hvað vikudegi sem var og samkvæmt þeirra dagatali byrjaði hver sólarhringur við sólsetur.
Félli hátíð og hvíldardagur saman, var helgi þess hvíldardags ,,mikil" eins og Jóh 19:31, orðar það um þessa páskahátíð. Vandinn er að einhver tími leið þar til sagan var skráð og hljóta dagsetningar að hafa ruglast. Mestar líkur eru á, að Kristur hafi verið krossfestur á fimmtudegi.

Jesús segir í Matt 16:4 að ,,eigi verði þessari kynslóð gefið annað tákn en Jónasar" og táknið var að Jesús skyldi vera 3 daga og 3 nætur í skauti jarðar, eins og Jónas í kvið hvalsins (Matt 12:40).
Hvernig sem við teljum þá er ómögulegt að fá 3 nætur frá föstudegi til sunnudags.

En spádómar ritningarinnar komu fram (56v), Jesús var svikinn af einum lærisveini og allir hinir höfnuðu honum á þessari nóttu (31v).


Verður þú í brúðkaupsveislunni ? - Matt. 25.kafli

Dæmisögur Jesú voru til að vekja fólk til umhugsunar um hvort það væri í raun tilbúið til inngöngu í ríki Guðs. Jesús notar oft brúðkaup sem myndlíkingu. Hann er brúðguminn og við erum gestirnir. Líkt og við gerum þegar við bjóðum til veislu, þá býður hann bara þeim sem þekkja hann... Það borgar sig að þekkja Jesú.
Ræninginn á krossinum frelsaðist á síðustu stundu, en þegar stundin er komin þá er of seint að ætla sér að afla sér upplýsinga... eða kaupa olíu á lampann eins og dæmisagan segir (1-13).

Næsta dæmisaga fjallar um talentur... sem bæði merkja peninga og hæfileika eða gáfur. Guð ætlast ekki til þess að við séum öll prófessorar, en við eigum að miðla eftir þeirri þekkingu sem við höfum. Það gerir engum gagn, ef þekking okkar deyr með okkur... og Guð gefur eftir hæfni (15v).

-31- Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.
-32- Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.
-33- Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.
-34- Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.
-41- Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.
-46- Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs.

Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér... sagði Jesús (Jóh.10:27), það skiptir öllu máli að kynnast Jesú nógu snemma, því enginn veit hvenær kallið kemur. 


Varist að láta nokkurn leiða yður í villu, tákn koma fram - Matt. 24.kafli

-1- Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins.
-2- Hann sagði við þá: Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn....
Musteri gyðinga var lagt í rúst um 70 e.Kr.
-3- Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?

Lærisveinarnir spyrja tveggja spurninga og þegar Jesús svarar þeim, þá sundurliðar hann ekki svarið. Varnaðarorð hans eiga við allt til enda veraldar...

-4- Jesús svaraði þeim: Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.
-5- Margir munu koma í mínu nafni og segja: Ég er Kristur! og marga munu þeir leiða í villu.
-9- Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.
-11- Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu.
-12- Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.
-13- En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.
-14- Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.

-15- Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað, lesandinn athugi það...
-16- þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.
Viðurstyggð eyðingarinnar er Satan, helgasti staður gyðinga var musterið í Jerúsalem þar sem moska múhameðstrúarmanna stendur núna. 

-21- Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.
-22- Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.
-23- Ef einhver segir þá við yður: Hér er Kristur eða þar, þá trúið því ekki.
-24- Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.
-27- Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins.

-29- En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.
-30- Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.
-36- En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.
-42- Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.
-44- Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.

19.maí 1780 varð það fyrirbrigði sem er kallað ,,dimmi dagurinn"
http://www.google.is/search?hl=is&q=may+19th+1780&btnG=Google+leit&lr=
og nóttina eftir varð ,,tunglið sem blóð"...
13.nóv 1833 varð mikið stjörnuhrap að talað var um stjörnuregn. 
http://www.google.is/search?hl=is&q=nov+13th+1833+&btnG=Leita&lr=
Héldu margir þá að endalokin væru komin.  Á milli þessara fyrirbrigða liðu 53 ár... síðar á þessu ári verða liðin 176 ár frá stjörnuregninu. Samkvæmt orðum Jesú eiga kraftar himnanna eftir að bifast... VAKIÐ... enginn veit hvenær það gerist.


Blindir leiðtogar - Matt. 23.kafli

-1- Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna:
-2- Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear.
-3- Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.
-4- Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.
-5- Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.

Jesús kallar fræðimennina og faríseana, hræsnara (vers 13,14,15,23,25, 27,29,) segir þá vera blinda leiðtoga (16v, 24v,), blinda heimskingja (17v), blinda menn (19v), blinda farísea (26v) og höggorma og nöðrukyn (33v). 
Prestastéttin, sem sá um uppfræðslu innan safnaðanna var á villigötum. Hinar heilögu ritningar voru aðeins til í musterinu og samkunduhúsunum og þess vegna erfitt fyrir hvern og einn að ætla að lesa þær og stúdera í einrúmi.  Fólkið, innan safnaðarins gerði það sem prestarnir sögðu þeim... Guð hafði sent marga spámenn til að leiða gyðinga af hinni röngu braut sem þeir gengu en allt kom fyrir ekki.

37- Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.
-38- Hús yðar verður í eyði látið... (2007 útg. orðar það... ,,Guð mun yfirgefa musteri yðar og það verður lagt í rúst")
5.Mós 28:62...Aðeins fámennur hópur skal eftir verða af yður, í stað þess að þér áður voruð sem stjörnur himins að fjölda til, af því að þú hlýddir eigi raustu Drottins Guðs þíns.

Allur kaflinn ætti að vera hverjum kristnum manni til íhugunar, að rannsaka ritningarnar sjálfur, betur sjá augu en auga... fyrir utan að sífellt er hægt að nálgast orðið frá nýju sjónarhorni. 


Snörur og fótakefli - Matt. 22.k shl.

Farisearnir reyndu hvað þeir gátu að leggja snörur fyrir Jesú. Hvað eftir annað kallar hann þá hræsnara og alltaf vitnar hann í spádóma Gt.
Gyðingar og saddúkear sátu ekki um Jesú til að að fá sannanir fyrir að Jesús væri sonur Guðs - heldur öfugt, þeir vildu sanna að hann væri það ekki. Svo virðist sem þetta áhugamál þeirra hafi sameinað þá í baráttunni gegn Jesú.

-23- Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:
-24- Meistari, Móse segir: Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.
-25- Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna.
-26- Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö.
-27- Síðast allra dó konan.
-28- Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.
-29- En Jesús svaraði þeim: Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs.
-30- Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni.
-31- En um upprisu dauðra hafið þér ekki lesið það sem Guð segir við yður:
-32- Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs. Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda.
-33- En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans.
-34- Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman.

Sakkúkear voru hópur gyðinga sem fór einungis eftir ritningunni en ekki erfikenningunum, þeir trúðu ekki á upprisu og því finnst manni einkennileg þessi spurning sem þeir leggja fyrir Jesú, varðandi upprisuna.
En spurningin er sönnun þess að þegar þörf krefur geti andstæðingar sameinast í andstöðu sinni... svipað og systkini sem berjast innbyrðis en saman sé á þau ráðist.
Saddúkear fóru aðeins eftir ritningunni en Jesús segir að þeir þekki þær ekki...þrátt fyrir allan sinn lærdóm. Þegar Jesús spyr, eiga þeir engin svör. 


Brúðkaupsveislan - Matt. 22.1-14

Það segir í guðspjallinu að Jesús talaði ekki á dæmisagna til fólksins (Matt 13:34). Það sem margir átta sig ekki á, er að margar þeirra eru ádeila á gyðinga fyrir að þekkja ekki þann sem þeir biðu eftir.
Margar dæmisagnanna eru um himnaríki, en höfundur Alfa námskeiðsins segir að orðið himnaríki sé aðeins að finna í Matt og ennfremur segir hann að gyðingar hafi notað þetta orð um himinninn þegar þeir vildu forðast að nefna nafn Guðs.

-1- Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti:
-2- Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns.
-3- Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma.
-4- Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.
-5- En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns,
-6- en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
Konungurinn í sögunni er Guð sem sendi son sinn Jesús sem brúðguma til jarðar. Jesús er brúðguminn (Matt 9:15)... Þjónar hans (spámennirnir) buðu til veislunnar og hinum útvöldu (gyðingum) var boðið til veislunnar, en þeir vildu ekki taka á móti boðskortinu. Spámenn Guðs voru ofsóttir og þeir drepnir.

-7- Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra.
-8- Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir.
Guð reiddist og gyðingar voru herleiddir... þeir misstu land sitt og musteri... Hjörtu þeirra voru hætt að þekkja Guð.  Áherslan breyttist, fyrst hinir útvöldu vildu ekki klæðast brúðkaupsklæðum (taka sinnaskiptum) og gera sig tilbúna fyrir veisluna þá skyldi öðrum vera boðið.

-9- Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.
-10- Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
-11- Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum.
-12- Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað.
-13- Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.
-14- Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.

Hver sá sem tekur við fagnaðarerindinu - íklæðist brúðkaupsklæðum - hjarta hans er umskorið og nýtt líf er hafið með Kristi. Einn gestanna skorti trú... og takið eftir kærleikanum ,,vinur" hvernig er þú hér kominn... og af því að hann þekkti ekki Jesú, þá var honum vísað út.
,,Margir eru kallaðir"... það er fullt af fólki sem heyrir boðskapinn en tekur aldrei afstöðu um hvort þeir vilji fylgja Jesú - þeir sem taka afstöðu eru útvaldir... og það er sorglegt að Jesús segir að þeir verði FÁIR.


Vondir vínyrkjar - Matt. 21:33-46

-33- Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur (Guð) plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum (gyðingum) á leigu og fór úr landi.
-34- Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína (stóru spámennina) til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn.
-35- En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja.
-36- Aftur sendi hann aðra þjóna (litlu spámennina), fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.
-37- Síðast sendi hann til þeirra son sinn (Jesús) og sagði: Þeir munu virða son minn.
-38- Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.
-39- Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
-40- Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?

-41- Þeir svara: Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.
-42- Og Jesús segir við þá: Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.
-43-
Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. 
-44- Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.
-45- Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá.
-46- Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.

Æðstuprestarnir þekktu ekki hyrningarsteininn, þeir afneituðu Jesú sem syni Guðs og gyðingar misstu forréttindin sem þeir höfðu haft, þ.e. að vera útvalin þjóð Guðs. Guðs ríki var frá þeim tekið og gefið hinni kristnu þjóð.


Pálmasunnudagur - Matt. 21:1-9

-1- Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina
-2- og sagði við þá: Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér.
-3- Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Herrann þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.
-4- Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:
-5- Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.
-6- Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim,
-7- komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak.
-8- Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn.
-9- Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!

Þrjú guðspjallanna greina frá atburðarrás pálmasunnudags og þó frásagnirnar séu svipaðar, eru þær ekki eins. Mark nefnir daginn ekki, þar hefst frásögnin þegar 2 dagar eru til páska.
Í Matt eru dýrin tvö, asna og foli... í Lúk (19:30) er dýrið eitt, foli sem enginn hefur riðið, 35v segir að lærisveinarnir hafi sett Jesús á bak, 37v segir að það eru lærisveinarnir sem hrópa: Hósanna... og 41v segir að þegar Jesús horfði yfir Jerúsalem hafi hann grátið... (skildi hann ekki gráta ef hann stæði þar í dag?)
Það er aðeins Jóh (12:13) sem nefnir pálmagreinarnar sem þessi sunnudagur er kenndur við.


Allir eru jafnir - Matt. 20.kafli

Kaflinn byrjar á þekktri dæmisögu Jesú um verkamenn víngarðsins... sögu sem kennir okkur að það er aldrei of seint að taka trú, játast Kristi og sagan kennir okkur að laun allra eru hin sömu þ.e. eilíft líf.
Þeim sem voru ráðnir í morgunsárið til starfa í víngarðinum fannst óréttlátt að þeir sem voru ráðnir rétt fyrir dagslok, ættu að fá sömu laun... og þeir kvörtuðu þrátt fyrir að fá umsamin laun... Þarna var ekki um launaleynd að ræða, laununum var deilt út í lok dags í allra viðurvist... Í upphafi hafa þeir sennilega hrósað happi yfir að hafa fengið vinnuna en í lok dagsins snúast þeir í óánægju sinni gegn þeim sem réði þá...
Sagan kennir okkur að við erum öll tilbúin að fá MEIRA en við áttum upphaf-lega að fá... og að við segjum sjaldan NEI TAKK - ég er komin með nóg.  

Jesús segir að við eigum að þjóna og gefa.. og menn eigi ekki að upphefja sig fyrir öðrum.
-25- En Jesús kallaði þá til sín og mælti: Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu.
-26- En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.
-27- Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar,
-28- eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.

Í ríkjum heimsins ríkir mikil stéttaskipting. Þar þjóna aðeins hinir lægra settu, en Jesús segir að við eigum að þjóna hver öðrum eins og engin stéttaskipting væri. Besta dæmið sem hann sýndi var þegar hann þvoði fætur lærisveina sinna (Jóh.13:5-10). Þetta er í raun ábending um að við getum ekki stéttaskipt okkur - við erum öll jöfn. Það er enginn hærri en annar. 

Hinir blindu menn við veginn (30v) hrópuðu enn hærra til Jesú þegar fólk hastaði á þá... þeir voru lágt settir, því menn trúðu því að fatlanir og örkuml væru í beinu samhengi við syndir viðkomandi... Eins eigum við að gera, við eigum að hrópa hærra...við eigum ekki að láta neinn hasta á okkur þegar við áköllum Drottin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband