Leita í fréttum mbl.is

Við hvað eru fólk hrætt?

Það heyrist alltaf hæst í þeim sem mótmæla og eru ósáttir. Það er eðlilegt því þeir sem eru sáttir þurfa ekki að kvarta... við erum yfirleitt löt við að hrósa og láta vita af því sem okkur líkar vel við. Þeir sem eru kristnir eru orðnir alltof umburðarlyndir gagnvart öðrum trúarhópum og trúlausum.

Ég held að kristið fólk verði að fara að spyrna við fótum... og krefjast þess að börnin þeirra fái sína ,,trúarfræðslu" eins og áður...
Það er ekki eins og það eigi sér stað einhver heilaþvottur og maður spyr sig, við hvað er þetta trúlausa fólk hrætt??? Er það hrætt við að börnin þeirra kjósi að trúa á Jesú... er þeim þess vegna svo umhugað um að börnin þeirra heyri ekki boðskapinn... þetta heitir að taka valið frá börnunum sínum. Kristni er ríkistrú hér en hér er ekki skipulagður átrúnaður með kröfu um fylgni... okkar er valið en... Kristur var sannspár hvernig málin myndu þróast.

Lúk 18:8 Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?


mbl.is Má bara rifja upp sögu Jesú og Maríu í kirkjum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Morten Lange

Sæl Bryndís

Fáir hreyfingar hafa eins greiðan aðgang að börnunum og alls fólks og kirkjan.  Það eru kirkjur út um allt land og sjaldan mjög langt í næsta kirkju miðað við hvað er lagt í búðir, skóla  eða opinbera  þjónustu. Svo ég spyr : Við hvað er biskupinn hræddur ?

Annars eru þessir tímar kannski ekki bestu tímarnir til að ræða svoleiðis ágreiningsmál. Nú um hátíðirnar færi vel á því að gleðjast og vera góð hvert við annað. Svo getum við þaulrætt málin seinna :-) 

Morten Lange, 25.12.2009 kl. 14:09

2 identicon

Börn kristinna geta fengið sína trúfræðslu Í KIRKJUM, þar sem slík fræðsla á heima. Þar er barnastarf, sunnudagaskóli og fleira sem sinnir þessu hlutverki ábyggilega mjög vel. Er það í alvörunni til of mikils ætlast að halda skólum nokkuð hlutlausum trúarlega séð?

Sigurjón (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 14:27

3 Smámynd: Bryndís Svavarsdóttir

Sælir og gleðilega hátíð.
Ég hafði orðið ,,trúfræðsla" innan gæsalappa vegna þess að eiginleg trúfræðsla er engin á leikskólum... ég kalla það ekki trúfræðslu að segja jólasöguna og hvers vegna við höldum jól. Skólar kenna nú trúarbragðafræði í stað kristinfræði.

En ef út í það er farið, þá er ekkert svæði hlutlaust, umhverfið er fullt af táknum sérstaklega í kringum trúarhátíðir sem á okkar landi eru trúarhátíðir kristinna... það er því eitthvað að ef það má ekki nefna Jesúbarnið sem er tákn þessarar hátíðar.

Við erum aldrei öll sammála og verðum að lifa við skoðanir annarra, bæði ég og þið... við getum skipts á skoðunum í mesta bróðerni en lýðræðið virkar þannig að meirihlutinn ræður og ég held að meirihluti þjóðarinnar telji sig kristinnar trúar.
Með bestu kveðju, Bryndís 

Bryndís Svavarsdóttir, 25.12.2009 kl. 15:45

4 identicon

"Við" höldum jól af ýmsum ástæðum. Sumir halda þau til að minnast fæðingu einhvers meints sonar guðs. Fyrir mitt leyti held ég þau fyrst og fremst til að gera mér glaðan dag í mesta skammdeginu og njóta samveru með vinum og fjölskyldu.

"Hlutlaust" meinti ég laust við skipulega trúarlega innrætingu. Það er mjög auðvelt að hafa skólastarf þannig.

Þessi "meirihlutinn ræður" rök eru alltaf mjög slöpp og afskaplega einfölduð mynd af lýðræðinu. Þó að meirihluti telji sig kristna þýðir það ekki að það sé réttlátt að þeir sem geri það ekki þurfi að sætta sig við að einhver trú sé innprentuð í börnin þeirra í skólum, hvort sem þeim líkar það betur eða ekki, ekki frekar en að það sé réttlátt að Sjálfstæðisflokkurinn sjái um "pólitískt uppeldi" barna í sveitarfélögum þar sem hann er með hreinan meirihluta.

Ég bendi aftur á sunnudagaskóla og annað kirkjustarf. Þar er vel hægt að fá trúarlegt uppeldi, sem og auðvitað á heimilum. Það þurfa engin börn að fara á mis við kristilegt uppeldi eða kristilegan boðskap ef það er það sem foreldrar þeirra vilja, og það án þess að neyða það upp á alla hvort sem þess sé óskað eða ekki.

Sigurjón (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 15:59

5 identicon

Hverjar væru þínar athugasemdir ef fulltrúar múslimatrúar, ásatrúar eða trúleysingja myndu heimsækja leikskóla og eiga notalega stund með þeim?

Dagskrá vikunnar gæti verið svona;

-mánudagar; kristinn trú

-þriðjudagar: múslimatrú

-miðvikudagar; búddatrú

-fimmtudagar; ásatrú

-föstudagar; trúleysingjadagur!

Þar sem við erum byrjuð að hræra í haus barnanna ættum við í sjálfu sér að gera það almennilega!

Þröstur Hrafnkelsson (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 16:06

6 identicon

Til að svara spurningu þinni: Ég er hrædd við að börnunum mínum séu kenndar trúarkenningar sem sannleika áður en þau hafa þroska eða aldur til að greina þar á milli. Hef þurft að leiðrétta misskilning þeirra oftar en einu sinni þegar heim er komið úr skóla. (og já það er trúboð í skólum, það heitir Kristni og trúarbragðafræðsla eða eitthvað á þá leið. Þar eru kenndar biblíusögurnar og stutt kynning á einni annarri trú á ári hverju)

Ég spyr á móti: Af hverju þarf að vera trúboð í skólum? og hver er munurinn á því að boða kristni 'af því að meiri hlutinn ræður' og að boða kenningar sjálfstæðisflokksins ef hann væri í sömu stöðu? 

Björk Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 17:38

7 Smámynd: Óli Jón

Bryndís: Samkvæmt bloggi þínu virðist ljóst að trúuðum foreldrum er ekki treystandi fyrir því að ala börn sín upp í trú og því þurfi ríkið, í gegnum skólakerfið, að koma að því með markvissum og afgerandi hætti.

Á hvaða sviðum er trúuðum foreldrum ábótavant:

  • Þekkja þeir ekki sína trú nægilega vel til þess að geta miðlað henni til barna sinna?
  • Skortir þá hæfni til þess að kenna börnum sínum á hvað sé best að trúa?
  • Hafa þeir ekki nægilega mikinn tíma til þess að innræta börnum sínum trú?
  • Skortir þá kennslugögn, fyrir utan auðvitað meginrit viðkomandi trúar?
  • Skortir þá aðstöðu til uppfræðslunnar, er stofan eða eldhúsið heima ekki nógu gott?
  • Eru þeir kannski ekki nægilega trúaðir skv. mati t.d. kirkjunnar eða ríkisins?

Að hvaða leyti getur ríkið uppfrætt t.d. börnin þín betur um trú en þú sjálf? Eftir hvaða kenningu ætti skólinn að fara þegar hann uppfræðir um kristna trú, þ.e. þá daga sem hann er ekki að fræða börnin um íslam, búdda, hindúisma og öll hin trúarbrögðin? Kristnir eru t.d. ekki sammála um hvaða dagur er hvíldardagurinn, sbr. þessa bloggfærslu. Hvernig snýr skólinn sér í þessu? Málið er nefnilega þannig með trú að hún er eins ólík og fólkið er margt.

Hvað um eftirfarandi atriði hvað varðar kristna trú:

Það er mýgrútur af álitamálum bara í kristni, og þá erum við ekki byrjuð að ræða íslam, búddisma, hindúisma eða öll hin trúarbrögðin sem skólinn þarf að sinna af kostgæfni.

Hvað finnst þér? Hvernig á skólinn að glíma við þetta ef honum er ætlað að taka við þessu hlutverki af foreldrum? Getur þannig verið að best sé að foreldrarnir sjái bara um þetta? Eða hreinlega sleppi því að leyfi börnunum að alast upp þannig að þau geti tekið hlutlausa afstöðu til trúar þegar þau hafa aldur og skynsemi til?

Óli Jón, 25.12.2009 kl. 19:49

8 Smámynd: Sigurður Helgason

Óli biblían er vel skrifuð og þar er varað við mönnum eins og þér og þeim sem munu koma í hans nafni, ef einkvað er að marka bókina þá komumst við að þessu öllu von bráðar og verður þú´þá í þeirra hópi sem standa utan við birnan og kallar herra herra, ég skal þá hnippa í þig og minna þig á

Sigurður Helgason, 26.12.2009 kl. 04:03

9 Smámynd: Óli Jón

Sigurður: Það er áhugavert að heilu kaflarnir í Biblíunni skuli vera tileinkaðir mér. En af hverju er skrifað um mig þarna? Er það vegna þess að ég vek upp spurningar um réttmæti þess að trúboð fari fram í skólum? Sáu höfundar Biblíunnar þetta fyrir? Eru þeir ósammála mínu sjónarmiði að það sé ljótt að innræta pínulitlum börnum trú áður en þau geta valið sjálf? Eru það ekki frekar litlar og ómerkilegar sakir?

Vísar þú síðan í efsta dag þegar lifendur og dauðir verða dæmdir? Hefur sá dagur ekki átt að vera kominn margoft, en ávallt verið frekar tíðindalítill þegar á reyndi? Svona meira venjulegir þriðjudagar eða fimmtudagar en Dómsdagar? Ef ég á eftir að upplifa slíkan dag þá verður gott að þú skulir hnippa í mig því annars mun hann líklega fara fram hjá mér. Þú veist, þegar ég er upptekinn við að syndga!

En þetta verður sannkristilegt af þér að hnippa í mig og minna mig á villur míns vegar þegar ég verð dæmdur. Þú gerir reyndar ráð fyrir að ég muni enda í neðra, sýnist mér, og þ.a.l. að þú munir enda í efra? Ég fagna því að þú skulir vera svo viss um eigið ágæti, eigin góðsemi og eigin verðleika að þú eigir nú þegar frátekið pláss á Ódáinsvöllum.

Hallelúja!

Óli Jón, 26.12.2009 kl. 11:32

10 Smámynd: Sigurður Helgason

þá stæði ég immi en ekki úti með þér,og gæti ekki potað í þig, er  alveg sammála þér í því að prestarnir eiga að fá launin frá sínum sóknarbörnum, en ekki okkur sindurunum

Sigurður Helgason, 26.12.2009 kl. 12:24

11 Smámynd: Sigurður Helgason

ÞARNA ER ANNAR MISSKILNINGUR AÐ MÍNU MATI,

HELVÍTI ER EKKI NEFNT Í MINNI BÓK, KOM INN Í TIL DÆMIS FJALLRÆÐUNA SEINNA MANNANNA VERK

Mönnunum var ætlað í upphafi að vera í paradís sem er jörðinni svo það verður ekkert himnaflakk á okkur ,einum stað stendur að 144000 fari til himna til að hjálpa við stjórn, restin verður hér á jörð hinum verður hreinlega eitt og fara ekki neitt

 amen

Sigurður Helgason, 26.12.2009 kl. 13:19

12 identicon

Öll trúarbragðafræðsla á heima fyrir utan skólana. Ég vill ekki að börnin mín læri um heiðna siði kristinna manna í skólanum sem þau ganga í.

Bjöggi (IP-tala skráð) 26.12.2009 kl. 16:00

13 Smámynd: Bryndís Svavarsdóttir

Sæl öll,
Sigurjón
, mér finnst þú heill í afstöðu þinni til jóladaganna, að geta notið hátíðarinnar á þann hátt að sem þín fjölskylda óskar... ég vona að þið hafið notið daganna vel.
Ég átta mig á hvað þú meinar með ,,skipulegri innrætingu” í skólum, kristinfræði er kennd fleiri vetur núna en þegar ég var í skóla… og ég veit að skoðun kennarans skiptir afar miklu máli. Það er samt ekki gefið að hann sé kristinn þó hann kenni kristinfræði.

Þröstur, nei, ég myndi ekki vilja einskorða leikskólann við trúarbragðakennslu ALLA DAGA… en umburðarlyndi JÁ… heimurinn er litríkur ekki einlitur. Ef þú pælir í barnaefninu sem börnin horfa á þá sérðu blönduna, 1 svartur, 1 kínverji (gulur), 1 gyðingur, 1 kristinn, 1 múslimi (brúnn) og þau leika sér öll í sátt… á bak við persónurnar eru trúarbrögð, hefðir og félagsmótun frá fjölskyldum þeirra.
Við verðum að virða aðra um leið og við lærum að standa fyrir okkar án þess að vera í vörn. Forsenda þess að líða vel, er að vera sáttur við sig og virða að aðrir, með aðrar skoðanir, lifa í sama samfélagi og ég.

Björk, trúboð í skólum… ég myndi segja að það væri t.d. ekki hægt að kenna mannkynssöguna án þess að koma inn á trúmál. Trúarbrögðin hafa litað heimsmyndina frá upphafi... menn börðust t.d. við kirkjuna vegna kenninga sinna. Stórkostlegustu málarar heims hafa skreytt kirkjurnar og málverkin segja sögu, eru túlkun á atburðum. Oft er sagan ljót, blóðug slóð… ljótustu verk mannkynssögunnar hafa verið framin í nafni trúar en ekki fyrir trúna. Við þurfum að læra bæði um það ljóta í heiminum sem og hið fagra.

Óli Jón, víst er foreldrum treystandi til að kenna börnum sínum. Við sendum þau í skóla þar sem þau læra að lesa, skrifa og reikna… þó við getum kennt þeim þetta sjálf. Ég trúi því að við séum ekki nógu fróð og víðsýn til að kenna þeim allt... og hlutlaust, eins og máltækið segir: heimskur er heimaalinn. Hvað er trúfræðsla margar kennslustundir, 1-2 á viku?
Vissulega eru alls staðar álitamál, meira að segja innan hverrar fjölskyldu... enginn fullkomlega sammála ef út í það er farið… trúarleg álitamál eru ekki í Biblíunni – heldur hjá mönnunum. Helsta vandamálið er að við viljum skilja og túlka allt eins og okkur sjálfum hentar.
Hvernig eiga börn að taka hlutlausa afstöðu, þau eru mótuð af skoðunum foreldra sinna… og ef þau taka trú finnst þeim þau jafnvel svíkja lit.

Sigurður, enginn veit hvaða dóm hann fær á efsta degi, við erum undir náð komin.
Róm 12:3 Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.  Fil 1:27 En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Gal 5:4… Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.  Efe 2:8… Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf.

Bjöggi, Ef kristin trú væri það versta sem börnin okkar geta lært um… við eigum frekar að vekja þau til umhugsunar að það sé þeirra að velja og hafna... svo að það sem við teljum slæmt fyrir þau, verði ekki mest spennandi. 

Sýnum hvert öðru kærleika þó við séum ekki á sömu skoðun.
1Tím 1:5  Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.

Bryndís Svavarsdóttir, 27.12.2009 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bryndís Svavarsdóttir
Bryndís Svavarsdóttir

alltaf að mála, þó ekki skrattann á vegginn.

Gaflari í húð og hár.
Gift, 4 börn, 8 barnabörn og 3 langömmubörn :)
Cand Theol í guðfræðideild HÍ.
Prestur..
vanræki áhugamálin


Aðaláhugamál:
Skemmtiskokkari:
Fjallgöngur,
Olíumálun,
Ferðalög.

Netfang:
bryndissvavars@gmail.com  Hlaupasíðan mín:
byltur.blog.is

Hef ekki enn tekið ákvörðun um að safna bloggvinum á lista hjá mér.

Eldri færslur

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband